Nafn mannsins sem lést í Eyjafjarðarsveit
Maðurinn sem fannst látinn innarlega í Eyjafirði á laugardagskvöld hét Jónas Vigfússon. Hann lætur eftir sig eiginkonu, tvær uppkomnar dætur og sjö barnabörn. Þetta kemur fram á mbl.is.
Jónas hafði verið við smalamennsku hátt upp í hlíðum Hagárdals að norðanverðu þegar viðbragðsaðilum barst beiðni um aðstoð.
Í fréttum hefur verið greint frá því að Jónas hafi látist af slysförum en mbl.is segir að skv. upplýsingum frá ekkju Jónasar sé það ekki rétt. Orsök andlátsins sé ókunn.
Í fréttinni kemur fram að fjölskylda Jónasar vilji koma á framfæri innilegu þakklæti til viðbragðsaðila en verkefni björgunarliða var mjög erfitt.
Jónas var fæddur árið 1951, bóndi á Litla-Dal í Eyjafjarðarsveit. Hann var fyrrverandi sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit og áður í bæði Hrísey og á Kjalarnesi.