Næg vinna – vafi hvort næst að manna öll störf
Atvinnuhorfur fyrir sumarið eru afar góðar á Akureyri og nágrenni. Næga vinnu er að hafa á svæðinu og frekar spurning hvort náist að manna þau störf sem í boði eru.
Samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun mældist 2,9 % atvinnuleysi á Norðurlandi eystra í mars (3,5% á landinu öllu), sem er aðeins lægra en í mánuðinum á undan en þá var það 3,1%. Að sögn Ellenar Jónínu Sæmundsdóttur, forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og Austurlandi, er atvinnuástand á svæðinu mjög gott og frekar vantar fólk í vinnu en hitt.
Mjög gott ástand á vinnumarkaðinum
„Það eru afar fjölbreytt störf í boði á svæðinu. Í flestum geirum eru spennandi tímar fram undan og því kjörinn tími til að hreyfa sig til og skipta um starf hafi fólk áhuga á því. Útlitið er mjög bjart og bara mjög gott ástand á vinnumarkaðinum. Á þessum árstíma er alltaf aukið framboð af störfum og það verður svo bara að koma í ljós hvort við höfum fólk í öll þessi störf.“ Ellen segir að í Evrópu sé mannekla víða orðið vandamál, enda mannfólkið stöðugt að eldast og færri börn fæðast. „Þannig að víða vantar fólk í vinnu, ekki bara hér á Íslandi. Hér á okkar svæði vantar helst fólk í ferðaþjónustugeirann og eitthvað í byggingariðnaðinn en við erum á fullu að miðla fólki í þessi störf.“
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Erlent vinnuafl að koma til baka
Að sögn Arnheiðar Jóhannesdóttir framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands er nokkuð misjafnt hvernig gengur hjá ferðaþjónustufyrirtækjum að manna fyrir sumarið. Heilt yfir má þó segja að ekki sé eins mikið krísuástand og verið hefur síðustu tvö ár. Í byrjun árs 2022 var enn Covid ástand og því mikil óvissa varðandi sumarið. Vegna þessa fóru margir of seint af stað í það að ráða til sín mannskap. Í ár er mun meiri vissa og bókanir góðar og tilfinning Arnheiðar er sú að atvinnurekendur séu fyrri í því en í fyrra að ráða til sín.
„Þetta virðist vera svolítið mismunandi eftir svæðum. Hjá sumum hafa mannaráðningar gengið ljómandi vel á meðan aðrir eru að ströggla. Erlent vinnuafl hefur verið að koma til baka og mikil þörf fyrir það,“ segir Arnheiður. Segir hún að það stefni í metsumar hvað fjölda ferðamanna varðar í sumar en samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir Markaðsstofu Norðurlands í nóvember á síðasta ári, er gert ráð fyrir komu tveggja milljóna ferðamanna til Íslands í sumar.
Hér má sjá fyrri umfjöllun Akureyri. net um komu skemmtiferðarskipa í sumar sem eru fleiri en nokkru sinni áður.