N4 óskar eftir gjaldþrotaskiptum
Fjölmiðlafyrirtækið N4 ehf. hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum eftir að tilraunir til að tryggja framtíð fyrirtækisins báru ekki árangur. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins.
Útsendingum verður ekki hætt strax, eins og skilja mátti af upphaflegri útgáfu þessarar fréttar. Föstudagsþátturinn fer í loftið í kvöld og ýmiskonar efni verður sent út næstu sólarhringa hið minnsta, eftir því sem Akureyri.net kemst næst. Það verður svo skiptastjóra að ákveða framhaldið.
Á vef N4 segir í dag:
„N4 hefur framleitt íslenskt efni undanfarin 15 ár. Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis. N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni.
Rekstur fjölmiðils eins og N4 hefur byggt á óeigingjörnu starfi starfsfólks í sífellt erfiðara rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Fyrir það á starfsfólkið mikið hrós skilið.
Stjórn fyrirtækisins harmar þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að N4 hefur verið eini fjölmiðillinn sem framleitt hefur íslenskt sjónvarpsefni utan höfuðborgarsvæðisins.“