Fara í efni
Fréttir

„Mörg skemmtileg verkefni í farvatninu“

Geimstofan - hönnunarhús á Akureyri var sett á laggirnar 14. október árið 2003 og 20 ára starfsafmæli er því fagnað um þessar mundir.

Geimstofan er alhliða auglýsingastofa/skiltagerð, sem veitir viðskiptavinum sínum um land allt heildstæðar lausnir á sviði markaðssetningar, að því er segir í tilkynningu. Starfsmenn Geimstofunnar eru sjö og segir Arnar Sigurðsson framkvæmdastjóri að verkefnastaðan sé góð á þessum tímamótum.

Góður tækjakostur og hugmyndaríkur hópur

„Góðu heilli höfum náð að vaxa og dafna á þessum tuttugu árum og margir viðskiptavinir hafa fylgt okkur frá upphafi. Áhöfn Geimstofunnar skipar þaulreyndur og hugmyndaríkur hópur, auk þess sem fyrirtækið er afskaplega vel tækjum búið og getur þess vegna tekið að sér fjölbreytt verkefni,“ segir Arnar Sigurðsson í tilkynningu frá fyrirtækinu. „Húsnæði okkar í Viðjulundi hentar einstaklega vel undir starfsemina, auk þess sem staðsetningin er frábær. Verkefnastaðan hjá okkur er góð, mér er óhætt að segja að mörg skemmtileg verkefni séu í farvatninu sem væntanlega líta dagsins ljós á næstu misserum. Þetta eru bæði smá og stór verk, enda okkar viðskiptavinir af öllum stærðum og gerðum. Framtíð Geimstofunnar er því á margan hátt björt og fyrir það erum við þakklát,“ segir Arnar.

Geimferðarsagan

Geimstofan - Það er bara þannig! er slagorð fyrirtækisins.

Saga þess er sem hér segir, í stuttu máli:

  • Þrír grafískir hönnuðir, viðskiptafræðingur og leikstjóri stofnuðu Geimstofuna 2003.
  • Arnar Sigurðsson, Jón Ingi Sigurðsson, Björgvin Guðjónsson, John Caraglia og Baldvin Z.
  • Geimstofan hóf göngu sína í litlu húsnæði að Brekkugötu 7a og fann fljótlega fyrir aukinni þjónustuþörf á auglýsingamarkaðnum. Var því ráðist í kaup á tækjum til skiltagerðar og var sú aðstaða í bílskúrnum hjá Arnari.
  • Fyrirtækið stækkaði ört og var ákveðið 2007 að flytja sig um set og sameinuðust deildir fyrirtækisins undir einum hatti að Glerárgötu 34b við Hvannavelli.
  • Geimstofan starfaði þar frá 2007 til 2018. Þurfti fyrirtækið að flytja tímabundið 2018-2019 í Sjallann vegna vatnstjóns á Glerárgötunni.
  • 2019 lá leiðin í Viðjulund 2b þar sem er í dag fullkomin aðstaða fyrir fyrirtækið, eins og það er orðað í tilkynningunni.