Fara í efni
Fréttir

Moli og fjölskylda taka við rekstri Backpackers

Feðgarnir Siguróli og Kristján – „Moli og litli Moli“ – hafa tekið við rekstri Akureyri Backpackers ásamt Birki Hermanni Björgvinssyni. Þeir eiga nú staðinn ásamt KEA. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir.

Nýir eigendur hafa tekið við rekstri Akureyri Backpackers. Veitingastaðurinn verður styrktur og hostel áherslurnar munu minnka í kjölfar eigenda skiptanna.

Hjónin Inga Lilja Ólafsdóttir og Geir Gíslason hafa átt og rekið Akureyri Backpackers í 11 ár en nú hefur fyrirtækið SBK ehf. keypt þeirra hlut í fyrirtækinu og á því staðinn til helminga við Kea. Það eru Siguróli Kristjánsson, Moli, eiginkona hans Elfa Björk Ragnarsdóttir og sonur þeirra Kristján Sigurólason sem standa á bak við kaupin ásamt Birki Hermanni Björgvinssyni.

Góður matur á góðu verði

Aðspurðir hvort nýir eigendur verði með nýjar áherslur í sambandi við reksturinn segir Siguróli að hlutirnir séu í skoðun með starfsfólkinu. „Við höfum áhuga á því að styrkja veitingastaðinn. Veitingastaðurinn hefur verið að gera góða hluti, er flottur og vel látið af matnum en okkur langar til þess að auka umferðina hingað, ekki síst fyrir heimamenn. Það eru enn Akureyringar sem hafa aldrei komið hingað inn.“

Siguróli segist kunna vel við hinn rómantíska kúrekastíl sem einkennir veitingastaðinn og þá verða áfram knattspyrnuleikir sýndir á staðnum, tveir í einu ef því er að skipta. „Fyrst og fremst viljum við halda verðinu í skefjum og vera með það góðan mat þannig að fólki vilji koma aftur og sjái að það sé þess virði að droppa hér inn. Ísland er frábært, fyrir utan veðrið og verðið. Við getum ekki mikið gert í veðrinu en verðinu getum við stjórnað.“

Akureyri Backpackers er í göngugötunni á Akureyri. Nýir eigendur ætla að styrkja veitingastaðinn enn frekar og fækka stórum herbergjum á gistiheimilinu.

Stórum herbergjum mun fækka

Siguróli og Elfa Björk hafa rekið Lava Apartments í sjö ár en fyrirtækið eiga þau ásamt Aroni Einari Gunnarssyni. Þau eru því með góða reynslu af gistirekstri og fara því ekki alveg blaut á bak við eyrun inn í reksturinn á Akureyri Backpackers þó veitingarekstur sé vissulega nýlunda fyrir fjölskylduna. „Það er gott að hafa Kristján og Birki með í þessu, þeir eru ungir og kraftmiklir,“ segir Siguróli og bætir við að þá hafi fyrrum eigendur staðarins verið þeim stoð og stytta og fúsir til að aðstoða og kenna sem hafi verið ómetanlegt. Hvað varðar gistihlutann þá segir Siguróli að þar megi vænta stærri breytinga heldur en í veitingarekstrinum. Hingað til hefur Akureyri Backpackers verið með hostel áherslu, þ.e.a.s. boðið upp á ódýra gistingu þar sem margir deila herbergi. „Þetta hostel concept kom illa út í covid og við sjáum fyrir okkur að fækka herbergjum sem hugsuð eru fyrir stóra hópa,“ segir Siguróli. Spurður út í það hvort þau séu ekki komin í samkeppni við sjálf sig með kaupunum á Akureyri Backpackers vill Siguróli ekki meina það því hann sér meiri samvinnu fyrir sér á milli Lava apartments og Backpackers og að báðar einingar styðji hvor aðra og renni jafnvel saman í framtíðinni.

Feðgarnir kíkja á matseðilinn en þeir stefna að því að halda verðinu þannig að heimamenn geti komið reglulega þangað og fengið sér að borða.

Vilja ná til heimamanna

Hvað ferðamennskuna varðar þá segist Siguróli vera bjartsýnn á tímana framundan. Hann bætir þó við að auðvitað verði heimamenn líka að sýna sinn stuðning í verki. Það sé ekki nóg að vilja að bærinn sé líflegur og með fjölbreytta veitingahúsaflóru en nýta sér svo aldrei veitingastaðina. Það sama gildi með beina flugið og fleira mætti telja, það sé ekki eingöngu hægt að stóla á að ferðamennirnir haldi öllu gangandi. „Við erum bara spennt fyrir nýjum verkefnum og þó við séum að taka við staðnum þegar verið er að fara inn í low season þá gefur það okkur betri tíma til að undirbúa okkur fyrir næsta tímabil. Næstu mánuðina munum við leggja áherslu á heimamenn, við viljum fá þá hingað inn og gera hlutina það vel að þeir vilji koma aftur.“

Siguróli Kristjánsson, gjarnan kallaður Moli og reyndar þeir feðgar báðir.