Mjög slæm veðurspá – ekkert ferðaveður – hætta á rafmagnsleysi
Norðan stormi og mikilli úrkomu er spáð á Norður- og Austurlandi í dag, sunnudag. Slydda eða snjókoma verður á láglendi og snjóbylur til fjalla. Snjóflóðahætta getur einnig skapast til fjalla á Norður- og Norðausturlandi en ekki er talin hætta í byggð.
Vegna ísingar á flutningslínum má jafnvel reikna með því að rafmagn fari af ef allt fer á versta veg. Sú varð raunin í mjög vondu veðri í desember 2019, kerfið er reyndar orðið mun betra nú en þrátt fyrir hefur fólk verið varað við hættu á þessu.
ATHUGIÐ! Versta veðrinu er spáð frá klukkan 13.00 eftir hádegi til klukkan 20.00 í kvöld. Þá er RAUÐ VIÐVÖRUN í gildi, sú mesta Veðurstofan notar.
APPELSÍNUGUL VIÐVÖRUN kl. 9:00 – 13:00
Norðan stormur, 18-25 metrar á sekúndu, með mikilli úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu. Miklar líkur eru á að ísing setjist á raflínur. Fólki er bent á að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól og hreinsa frá niðurföllum. Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.
- Hvað þýðir appelsínugul viðvörun? Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getur valdið miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getu valdið tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin. Veður sem þessi verða nokkrum sinnum á ári.
RAUÐ VIÐVÖRUN kl. 13.00 – 20.00 í dag
Norðan stormur eða rok, 20-28 metrar á sekúndu með mjög mikilli úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu. Miklar líkur eru á að ísing setjist á raflínur. Fólki er bent á að tryggja eigið öryggi meðan viðvörunin er í gildi. Búfénaður þyrfti að vera kominn í skjól. Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.
- Hvað þýðir rauð viðvörun? Miklar líkur eru á veðri sem hefur mjög mikil samfélagsleg áhrif, eða slíkt veður er yfirstandandi. Einstaklega áköfum og hættulegum veðurskilyrðum er spáð. Búast má við miklum skemmdum, líkur á slysum eru miklar og veðrið ógnar lífi. Viðbúið að samgöngur lokist og aðgengi að innviðum/þjónustu skerðist.
APPELSÍNUGUL VIÐVÖRUN frá klukkan 20.00 í kvöld til 7.00 í fyrramálið, mánudagsmorgun
Norðan hvassviðri eða stormur og mikil slydda eða snjókoma (Appelsínugult ástand)Norðan og norðvestan 18-25 m/s með mikilli úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu. Miklar líkur eru á að ísing setjist á raflínur. Búfénaður þyrfti að vera í skjóli. Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.