Mjög slæm spá: „ekkert ferðaveður“
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir morgundaginn, laugardag. Sú appelsínugula gefur til kynna að veðrið verði mjög slæmt, frá því klukkan 3 í nótt. Hvasst verður með snjókomu og skafrenningi, stórhríð á köflum og „ekkert ferðaveður“ eins og það er orðað. Spáð er 20 til 25 metra vindi á sekúndu. Á morgun verður frostið 3 til 9 stig í landshlutanum.
Þessi viðvörunin gildir frá því klukkan þrjú í nótt til hádegis á morgun. Frá hádegi til klukkan fimm síðdegis er einnig viðvörun, sú er gul sem þýðir að gert er ráð fyrir ögn skárra veðri, þótt það verði enn slæmt. Þá er spáð 15 til 23 metra vindi á sekúndu á Norðurlandi eystra, dálitlum éljum eða skafrenningi með lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum.
Lögreglan á Norðurlandi eystra er við öllu búin og biður fólk að vera á varðbergi. „Veðurofsinn hefst í kvöld og mun standa fram á miðjan dag á morgun, laugardag. Vert er að nota daginn í dag og huga að lausum munum og jafnvel jólaskrauti. Reikna má með að vegir teppist og ekki mun viðra til ferðalaga. Eigendur báta og annara eigna við sjó og hafnir eru beðnir um líta eftir eigum sínum, þar sem norðvestanátt er víða til vandræða við þessar aðstæður,“ sagði á Facebook síðu lögreglunnar í morgun.
Mjög slæmu veðri er einnig spáð á Austurlandi og Suðausturlandi.