Fara í efni
Fréttir

Milljónatjón varð hjá Sólskógum í rokinu

Eitt hús Sólskóga sem plastið fauk af í rokinu í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Mikið tjón varð hjá gróðrarstöðinni Sólskógum í Kjarnaskógi í rokinu í gær. Starfsfólk hefur verið á fullu að lagfæra í dag og er í kapphlaupi við tímann við að plasta húsin aftur fyrir norðanskotið á morgun. Eigendur skjóta á tjón upp á 3-4 milljónir króna.

Katrín Ásgrímsdóttir, einn eigenda Sólskóga, segir öll hús uppistandandi en plast fór af þremur húsum. Af einu húsinu fauk 40 metra langur gluggi og eyðilagðist. Allmargar hurðir fuku og skemmdust og nýtileg útisvæði skemmdust talsvert. Hún lítur þó á jákvæðu hliðarnar og segir þakkarvert að stóru gróðurhúsin hafi sloppið nánast alveg og fyrirtækið sé með frábært starfsfólk sem er á kafi í að laga og gera við. 

„Við erum að verða búin að negla fyrir gluggann, laga hurðir og hreinsa upp rifið plast. Við reiknum með að geta plastað að minnsta kosti hluta af húsunum á morgun fyrir norðanverðrið,“ sagði Katrín í dag þegar Akureyri.net hafði samband við hana. Plöntur gróðrarstöðvarinnar sluppu að mestu.

Aðspurð segir Katrín að ekki sé búið að áætla tjónið, en skaut á að það gæti verið á bilinu 3-4 milljónir króna. Sumt segir hún vera tryggt, en annað ekki hægt að tryggja, eins og útisvæðin.