Fara í efni
Fréttir

Milljarður hefur lesið um eða horft á risastökkið

Samstarfsmenn skíðastökkvarans Ryoyu Kobayashi tollera Japanann eftir hið frábæra afrek hans í Hlíðarfjalli. Mynd: Red Bull

Afrek japanska „skíðaflugmannsins“ Ryoyu Kobayashi í Hlíðarfjalli í síðasta mánuði hefur vakið gríðarlega athygli eins og vænta mátti. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá stórfyrirtækinu Red Bull, sem stóð fyrir viðburðinum, hefur rúmlega einn milljarður manna lesið frétt um stökkið á vefmiðli eða horft á myndband – lengst sveif hann 291 metra, en áður hafði skíðamaður lengst stokkið 253,5 metra.

Stökkið er ekki viðurkennt sem heimsmet af alþjóða skíðasambandinu þar sem ekki var um að ræða hefðbundna keppni heldur sérstakan viðburð fyrir einn stökkvara á vegum fyrirtækis. Það var í raun vitað áður en ævintýrið hófst en breytir engu um að þetta var lengsta skíðastökk mannkynssögunnar.

Gera máð ráð fyrir að stökkið verði gríðarleg kynning á Akureyri og aldrei að vita nema ferðamenn flykkist norður hingað í fótspor Japanans þótt stökkpallurinn sjálfur sé horfinn. Annað eins hefur gerst í ferðaþjónustunni. Margir horfa sennilega einungis á stökkið sem slíkt en Akureyrarbær er oft nefndur í umfjöllun erlendra fjölmiðla og í myndbandinu.

Steinþór Traustason, sérfræðingur í landmælingum hjá verkfræði- og ráðgjafarstofunni COWI á Íslandi, vann ötullega að undirbúningi stökksins síðasta árið í samstarfi við Red Bull. Fjallað verður nánar um aðkomu COWI að ævintýrinu hér á Akureyri.net síðar í dag.

ATH - í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að milljarður manna hefði horft á myndband af stökkinu en það var á misskilningi byggt. Þeir eru taldir með sem hafa lesið frétt á netinu.