Miklar breytingar á bæjarstjórn eftir ár
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG, hættir í bæjarstjórn Akureyrar að loknu kjörtímabilinu að ári. Þetta kemur fram á vef Vikublaðsins í morgun. Áður hafði Akureyri.net greint frá því að Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn, hygðist draga sig í hlé og þar áður að Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gæfi ekki kost á sér áfram. Þá er Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar, í framboð til Alþingis í haust og nái hún kjöri kveðst Hilda hætta í bæjarstjórn Akureyrar. Því er ljóst að miklar breytingar verða á bæjarstjórn eftir kosningarnar sumarið 2022.
„Mér finnst 8 ár í þessu vera fínn tími og held að það sé bara gott að hleypa nýju fólki að, ég mun þó alveg pottþétt vera til staðar fyrir nýjan oddvita til að deila reynslunni,“ segir Sóley Björk í samtali við Vikublaðið.