Mikill viðsnúningur hjá Ferro Zink
Málmiðnaðarþjónustufyrirtækið Ferro Zink hagnaðist um 47 milljónir króna á síðasta ári og varð jákvæður viðsnúningur í rekstri félagsins, þar sem tap ársins 2019 nam 80 milljónum króna. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.
Þar segir að tekjur félagsins hafi numið ríflega 1,7 milljörðum króna og aukist um nærri 300 milljónir króna milli ára. „Eignir námu ríflega 1,1 milljarði króna í árslok 2020 og eigið fé 236 milljónum króna,“ segir í fréttinni.
KEA á 70% hlut í félaginu. Reynir B. Eiríksson er í fréttinni sagður framkvæmdastjóri Ferro Zink, en rétt er að geta þess að hann lét af því starfi um síðustu mánaðamót, að eigin ósk.
Hætti á toppnum
„Ég hef starfað hjá félaginu í fimm og hálft ár og óhætt er að segja að ferð félagsins þann tíma hefur ekki alltaf verið á beinum og breiðum vegi. Oft hefur vegurinn verið holóttur og beygjurnar óþarflega margar og skarpar,“ sagði Reynir í færslu á Facebook þegar hann tilkynnti um starfslokin.
„Þegar ég tók að mér starf framkvæmdastjóra fyrir rúmum fimm árum óraði mig ekki fyrir því hvaða verkefni biðu mín. Þau hafa reynst afar mörg, fjölbreytt og oft snúin viðfangs. Eftir þung ár í rekstri var það síðasta gott og byrjun þessa árs sú besta undir minni stjórn. Ég segist því stoltur hætta á toppnum. Ég skila góðu búi,“ sagði Reynir.