Fara í efni
Fréttir

Mikill kraftur á Akureyri; hugsa stórt og ná langt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Garðar Már Birgisson, einn eigenda Þulu, og alþingismennirnir Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Mér finnst andinn hér í takt við það sem ég vil sjá í samfélaginu öllu, við eigum að gera íslenskt hugvit að stórri útflutningsgrein, það mun bæta lífsgæði okkar til lengri tíma; við eigum að komast út úr því að vera að miklu leyti auðlindadrifið samfélag og þar skipta rannsóknir, nýsköpun, iðnaður og tækni miklu máli,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við Akureyri.net eftir að hún heimsótti nokkur fyrirtæki og stofnanir á Akureyri í gær.

Ráðherrann fundaði með bæjarstjóranum á Akureyri, Ásthildi Sturludóttur og Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri, skoðaði Fab-Lab smiðju í Verkmenntaskólanum; stafræna smiðju með nýjustu tækni og aðstöðu til að framleiða nánast hvað sem er, kynnti sér starfsemi AkureyrarAkademíunnar og heimsótti Eim, þar sem unnið er að því að bæta nýtingu orkuauðlinda og auka nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi. Síðast en ekki síst heimsótti Áslaug Arna fyrirtækin Vélfag, Þulu og Arctic Therapeutics.

Hugsa stórt og ná langt

„Mér finnst einstakt að heimsækja þessi fyrirtæki og sjá hvernig þau hafa nýtt sér þann kraft sem býr á svæðinu; þau eru gott dæmi um hve langt íslenskt hugvit getur náð,“ sagði Áslaug Arna. „Þetta eru framúrskarandi fyrirtæki þar sem verið er að gera ótrúlega hluti í nýsköpun. Mér finnst Vélfag til dæmis ramma vel inn það sem ég er að tala um, það er ánægjulegt að skynja hugarfarið, hve menn hugsa stórt með það að markmiði að ná langt. Þula er annað gott dæmi, og Arctic Therapeutics; starfsemin þar sýnir hve mikil verðmæti geta orðið til í rannsóknum. Það er mikilvægt að slík fyrirtæki og háskólar tengist því það gerir mikið fyrir samfélagið. Það er ótrúleg lyfjaþróun í gangi hjá fyrirtækinu.“

Störf án staðsetningar

Áslaug Arna segir alla fundi gærdagsins hafa verið góða. „Ég fékk öfluga kynningu á starfsemi háskólans og öllu sem honum tengist, ræddi um tækifæri í nýju ráðuneyti og áskoranir framundan, bæði í skólanum og á svæðinu.“ Hún ræddi á svipuðum nótum við bæjarstjórann og fannst spennandi að kynna sér starfsemina alls staðar þar sem hún kom. „Það er til dæmis mikið áherslumál að fjölga fólki í iðn- og tæknigreinum,“ sagði ráðherra eftir heimsóknina í Verkmenntaskólann.

„Mig langar að ýta enn frekar undir að svæðið eflist og hef vonandi þegar gert það með því að ákveða að auglýsa nánast öll störf í ráðuneytinu án staðsetningar. Nú þegar eru tveir starfsmenn ráðuneytisins búsettir á Akureyri og á næstu vikum verða fleiri úr ráðuneytinu hér við störf. Bæði til að kynna sér það sem verið er að gera á svæðinu og mynda tengsl. Það er gott bæði fyrir svæðið og ráðuneytið.“

Með stofnendum Vélfags. Frá vinstri: Njáll Trausti Friðbertsson, Bjarmi Sigurgarðarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Magnús Júlíusson, aðstoðarmaður ráðherra og Ólöf Ýr Lárusdóttir.