Mikil tímamót fyrir fólkið og fyrirtækið
Starfsemi Samskipa á Akureyri var flutt í nýbyggingu að Goðanesi 12 fyrir sléttri viku. Fyrirtækið hefur lengi verið staðsett við Tryggvabraut en öll aðstaða er mun betri á nýja staðnum, bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini, segir Henný Lind Halldórsdóttir, afgreiðslustjóri Samskipa á Akureyri. Hún segir flutninginn mikil tímamót.
„Í fyrsta lagi erum við komin með mun betra aðgengi fyrir viðskiptavini, sem er auðvitað lykilþáttur í því að geta þjónustað þá vel, og í öðru lagi erum við nú með mun stærra og hentugra húsnæði fyrir starfsemina,“ segir Henný Lind. Í Goðanesinu eru fleiri stæði fyrir bíla til lestunar, í húsinu eru nýir kælar, nýr frystir og þannig mætti áfram telja.
Ljósmynd: Þórhallur Jónsson
Nýbyggingin að Goðanesi 12 þar sem Samskip eru nú til húsa. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Dyr Samskipa á nýja staðnum voru opnaðar á mánudegi fyrir viku. „Við vorum með opið á Tryggvabrautinni á föstudegi en þökk sé mínum frábæru starfsmönnum, sem unnu við að standsetja alla helgina, gátum við opnað hér strax á mánudegi,“ sagði Henný við Akureyri.net fyrir helgina.
„Það hefur lengi staðið til að flytja hingað í Goðanesið og starfsfólkið hefur beðið mjög spennt,“ segir hún. Margt tafði fyrir, nú síðast Covid heimsfaraldurinn en starfsfólkið gleðst mjög, segir Henný, að nýja aðstaðan sé orðin að veruleika. „Þetta eru virkilega spennandi tímar fyrir starfsfólkið, sem margt hefur unnið á Tryggvabrautinni í mörg ár. Nokkrir hafa verið hjá fyrirtækinu í meira en 25 ár og mjög margir í meira en 10 ár. Flutningurinn í nýja húsnæðið eru mikil tímamót bæði fyrir fyrirtækið sjálft og starfsfólkið.“
Starfsfólk Samskipa á Akureyri þjónar svæðinu frá Siglufirði í vestri að Vopnafirði í austri. „Það er ansi stór partur af landinu. Þetta er næst stærsta starfsstöð Samskipa, hingað koma allar vörur sem eiga að fara á staðina hér í kring og austur, hér er millistopp og næturvakt að störfum til þess að flokka vörur á lestunarreiti. Bílstjórar mæta svo daginn eftir og lesta tækin sín. Hér er sem sagt unnið allan sólarhringinn og allt gengur eins og smurt tannhjól.“
Auk hefðbundinnar flutningastarfsemi er Samskip með vörulager fyrir Elko. Opið er hjá Samskipum frá klukkan 8 að morgni til 4 síðdegis „en frá klukkan 4 til 7 virka daga er hægt að sækja vörur frá Elko, og á milli klukkan 3 og 4 bæði laugardaga og sunnudaga.“
Bátasmiðjan Seigla var áður til húsa að Goðanesi 12 en stórhýsi fyrirtækisins brann fyrir fimm árum. Bygging nýs húss Samskipa á lóðinni hófst í haust.