Fara í efni
Fréttir

„Mikil tækifæri í þessu rótgróna fyrirtæki“

Blikkrás í morgun. Frá hægri, hjónin Oddur Helgi Halldórsson og Margrét Harpa Þorsteinsdóttir, hjónin Hugrún Ósk Hermannsdóttir og Ottó Biering Ottósson og synir þeirra, Hermann og Vilhelm, sem kaupa fyrirtækið ásamt föður sínum.

„Við sjáum mikil tækifæri í þessu rótgróna fyrirtæki, sem mér finnst bæjarprýði af,“ segir Ottó Biering Ottósson, nýr eigandi Blikkrásar við Akureyri.net.

Ottó kaupir Blikkrás ásamt sonum sínum, Hermanni og Vilhelm, af Oddi Helga Halldórssyni og Margréti Hörpu Þorsteinsdóttur og tók formlega við rekstrinum í dag, eins og fram kom í morgun.

Blikkrás hóf starfsemi 2. janúar 1986 þannig að Oddur Helgi lætur af störfum nákvæmlega 38 árum eftir að hann lagði af stað í það ferðalag sem rekstur Blikkrásar hefur verið.

„Hér er mjög gott starfsfólk en það vantar reyndar fleiri, ekki síst nema. Blikksmíði er starf sem hentar öllum kynjum,“ segir Ottó. Hann segir verkefnastöðuna góða en nefnir að fyrirtæki eins og Blikkrás geti sótt út fyrir svæðið í ríkari mæli og stefnt sé að því. „Þjónusta við viðskiptavinina er auðvitað númer 1; fyrirtækið hefur staðið sig mjög vel í því, við höldum því áfram af fagmennsku og viljum gera enn betur,“ segir Ottó Biering.

Frétt Akureyri.net í morgun: Nýir eigendur taka við rekstri Blikkrásar