Þyrla Landhelgisgæslunnar við Sjúkrahúsið á Akureyri. Ljósmynd: Landhelgisgæslan
Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir mikilvægt að þyrla Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri. Það styrki viðbragðsgetu og sé mikið öryggismál. Aðalsteinn Júlíusson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Akureyri, talaði á sömu nótum í samtali við
mbl.is í gær.
„Við getum svo sannarlega tekið undir orð Aðalsteins Júlíussonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri, í fréttum í gær um mikilvægi þess að hafa þyrlu Landhelgisgæslunnar staðsetta á Akureyri. Ekki bara er þetta gríðarleg styrking á viðbragðsgetu viðbragðaðila heldur er það mikið öryggismál vegna nálægðar við Sjúkrahúsið á Akureyri og þá sérfræðigetu sem við búum að hér,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri á Facebook síðu stofnunarinar í morgun. „Það væri synd að þetta mál yrði ekki tekið lengra, sérstaklega í ljósi þess að verið er að stækka flughlað flugvallarins á Akureyri svo og byggingar á svæðinu. Hér mætti vel gera ráð fyrir bækistöð þyrlusveita fyrir Norðurhafið,“ segir hún að lokum.
Sjö útköll um helgina
„Viðbragðstími þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar styttist umtalsvert um helgina með því að kalla þyrlur stofnunarinnar bæði út frá Akureyri og Reykjavík. Undanfarnar tvær helgar hefur Landhelgisgæslan gert þyrlur stofnunarinnar út frá mismunandi stöðum á landinu. Um verslunarmannahelgina voru þyrlurnar gerðar út frá Akureyri og Vestmannaeyjum og um liðna helgi var þyrlusveitin kölluð út frá Reykjavík og Akureyri,“ sagði í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni í gær.
„Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist sjö útköll um helgina og var þrívegis kölluð út frá Akureyri vegna slysa. Bifhjólaslys urðu á föstudags og laugardagskvöldi á svipuðum slóðum á hálendinu. Annað varð austur af Herðubreið og hitt norður af Vatnajökli.“
Verkefnið líklega endurtekið
Í tilkynningu stofnunarinnar segir ennfremur í gær að líkur séu á að framhaldi verði á þessu tilraunaverkefni Landhelgisgæslunnar yfir fjölmennar ferðahelgar.
„Viðbragðstími vegna þessara tveggja slysa styttist um klukkustund með því að kalla þyrluna út frá Akureyri. Þeir sem slösuðust voru báðir fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Á meðan þyrluáhöfnin sem stödd var á Akureyri annaðist útkall vegna bifhjólaslyssins á laugardagskvöld var hin þyrluvaktin sem stödd var í Reykjavík kölluð út í Flatey vegna slyss sem þar varð.
Aðfaranótt sunnudags varð alvarlegt umferðarslys á Ólafsfjarðarvegi og var þyrlan stödd á Dalvík þegar útkallið barst og gat áhöfn hennar brugðist við með skjótum hætti. Sá sem slasaðist var einnig fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri. Útgerð þyrlanna frá Akureyri og Vestmannaeyjum undanfarnar tvær helgar gekk vonum framar og stytti viðbragðstíma. Líkur eru á að framhald verði á þessu tilraunaverkefni Landhelgisgæslunnar yfir fjölmennar ferðahelgar.“
Snýst um peninga
„Það er gríðarlegt öryggi fólgið í því að hafa þyrluna hjá okkur. Helst vildum við hafa hana hér allt árið,“ sagði Aðalsteinn Júlíusson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, við mbl.is í gær.
„Þetta er einfaldlega þannig staðsetning að þeir eru miklu fljótari að fara héðan, enda Akureyri miklu meira miðsvæðis á landinu heldur en Reykjavík,“ segir Aðalsteinn.
Hann segir viðbragðsaðila á Norðurlandi oft hafa velt þessu fyrir sér, „hvers vegna það sé ekki fyrir löngu búið að kanna það að hafa þyrlu staðsetta á Akureyri“.
Spurður hvort lögreglan muni beita sér fyrir því, svarar Aðalsteinn:
„Menn eru linnulaust búnir að nefna það í gegnum árin að hafa þyrluna staðsetta fyrir norðan. Ég held að þetta kosti bara fullt af peningum, það er það sem málið snýst um,“ segir hann og telur málið snúast fyrst og fremst um fjárveitingar.
Þá nefnir Aðalsteinn annan vinkil sem hann segir ekki mikið talað um. Ríkislögreglustjóri starfrækir sérsveit, sem stundum þarf að flytja landshluta á milli vegna alvarlegra mála.
„Eðlilega er hún í flestum tilfellum fljótari að bregðast við héðan vegna staðsetningar okkar á landinu,“ segir Aðalsteinn.
Hann segir sérsveitina þó stundum flutta með sjúkraflugvélum, en ókosturinn sé sá að ekki er hægt að lenda flugvélum alls staðar á landinu. „Það myndi hjálpa viðbragðsaðilum hér mjög mikið og styðja við sjúkralið og lögreglu,“ segir Aðalsteinn við mbl.is í gær.