Metfjöldi gistinátta á Norðurlandi í júní
Gistinætur á hótelum á Norðurlandi í júní á þessu ári voru fleiri en nokkru sinni áður. Alls voru skráðar 54.236 gistinætur, sem er um 8% fjölgun frá árinu í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu Markaðsstofu Norðurlands, byggt á tölum frá Hagstofu Íslands.
„Nýting hótelherbergja hefur ekki verið betri og helst stöðug á milli ára sem er sérstaklega jákvætt í ljós þess að hótelum fjölgaði um tvö og herbergjum um 71. Þróunin í nýtingu herbergja í þessum mánuðum hefur verið á uppleið síðustu ár, ef frá eru talin árin 2020 og 2021 vegna heimsfaraldurs, og ljóst er að tækifærin til að gera enn betur eru til staðar,“ segir í tilkynningunni.
Tölur fyrir maímánuð gefa til kynna að aðalferðamannatímabilið sé að lengjast, en skráðum gistinóttum á Norðurlandi í maí fjölgaði um 27% frá árinu í fyrra, voru samtals 39.883 í maí á þessu ári. Fjölgunin í maímánuði rímar vel við markmið ferðaþjónustunnar á Norðurlandi, sem er að jafna árstíðasveifluna eins og kostur er. Þá munu einnig vera vísbendingar um að aðal ferðamannatímabilið sé að lengjast í hina áttina, fram í september og október, sé miðað við síðastliðið ár og góða bókunarstöðu á þessu ári.