Mesta úrkoma á einum sólarhring frá 1946
Sólarhringsúrkoman á Akureyri þriðjudaginn 19. september, mældist 55,9 mm og er það mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur frá 1946. Mælingin er uppsöfnuð úrkoma frá kl. 9 að morgni mánudagsins 18. september til kl. 9 að morgni þriðjudagins 19. september. Úrkoman þennan eina sólarhring á Akureyri var meiri en fellur að meðaltali í septembermánuði í bænum.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sem rekur veðurvefinn Blika.is benti Akureyri.net á úrkomumet frá frá 1946, en í tímaritinu Veðráttunni má finna upplýsingar um 91,8 mm úrkomu á Akureyri 23. september það ár. Veðurstofa Íslands staðfestir að aðeins einu sinni hafi sólarhringsúrkoma á Akureyri mælst meiri en 18.-19. september, það er 23. september 1946.
Meðalúrkoma í september á Akureyri er 53 mm þannig að úrkoman sem féll á Akureyri 18.-19. september er meiri en yfirleitt fellur í heilum septembermánuði í bænum, skv. upplýsingum frá Kristínu Björgu Ólafsdóttur, sérfræðingi á sviði veðurrannsókna hjá Veðurstofu Íslands.
Óslegið met frá 1946
Stærstu úrkomudagarnir í metaskrá yfir úrkomu á Akureyri eru:
- 3. desember 2020: 50,2 mm
- 7. október 2001: 51,9 mm
- 25. júlí 1950: 52 mm
- 23. september 1946: 91,8 mm
Metið sem enn stendur er frá 1946 og verður vonandi aldrei slegið. Í tímaritinu Veðráttunni fyrir september 1946 má sjá að sólarhringsúrkoma á Akureyri var 91,8 mm mánudaginn 23. september það ár. Þar segir meðal annars um skaða af völdum veðurs: „Þ. 22.-23. flóði vatn inn í kjallara nokkurra húsa á Akureyri og olli skemmdum á vörubirgðum og híbýlum.“ Þar er einnig sagt frá því að símabilanir hafi orðið á svæðinu vegna ísingar og hvassviðris, mest í Vaðlaheiðinni þar sem rafmagnslínan til Akureyrar bilaði einnig. „Sama dag urðu víða skriðuföll út með Eyjafirði að austan,” mestar í Höfðahverfi.
Í Degi fimmtudaginn 26. september 1946 segir meðal annars í frétt af veðrinu helgina áður:
„Norðan stormur með aftaka rigningu geisaði hér um sl. helgi. Urðu víða skemmdir í kjöllurum hér í bænum af völdum vatnsrennslis og sumar götur allt að því ófærar. Skriður féllu úr höfðanum ofan við Aðalstræti 70, allt fram á götu, sömuleiðis féll skriða úr höfðanum sem kirkjan stendur á, allt fram á götu, gegnt Verzl. Eyjafjörður. Ekki varð tilfinnanlegt tjón af þessum sökum.“