Meiri loðna – verðmæti ykist um 10 milljarða
Gera má ráð fyrir yfir 100 þúsund tonna hækkun ráðlags hámarksafla á loðnu á yfirstandandi vertíð, eftir að umtalsvert magn af hrygningarloðnu mældist á landgrunninu norður af Húnaflóa. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar í dag. Útflutningsverðmæti þessa viðbótarafla gæti numið um 10 milljörðum króna!
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson var við mælingar síðustu 10 daga. Endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir „og ný veiðiráðgjöf verður því vart tilbúin fyrr en í byrjun næstu viku. Í ljósi þess að núna er langt liðið á loðnuvertíðina vill Hafrannsóknastofnun upplýsa að umtalsvert magn af hrygningarloðnu mældist á landgrunninu norður af Húnaflóa sem var ekki komið á mælisvæðið þegar fyrri mæling fór fram. Ljóst er að mælingar undanfarinna daga munu leiða til hækkunar á tillögum um hámarksafla á loðnuvertíðinni 2022/2023. Varlega áætlað má gera ráð fyrir yfir 100 þúsund tonna hækkun ráðlags hámarksafla,“ segir á vef Hafró.
„Loðnan sem mældist úti fyrir Húnaflóa var 3 – 4 ára loðna sem komin var tiltölulega nálægt hrygningu, með tæplega 16% hrognafyllingu syðst en tæp 12% utar. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að þessi loðna muni líklegast hrygna á þessum slóðum.“
Nánar hér á vef Hafrannsóknarstofnunar