Fara í efni
Fréttir

Meira en 10% allra íbúa á Akureyri með heitan pott

Heitapottseign hefur aukist mjög á Akureyri en margir leyfðu sér þann lúxus að fá sér heitan pott eftir að Covid faraldurinn reið yfir heimsbyggðina. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Heitapottsnotkun landsmanna hefur aukist mikið að undanförnu. Í Covid komu margir sér upp heitum potti og eru Akureyringar þar engin undantekning. Aukin heitapottseign landsmanna hefur m.a. valdið því að notkun á heitu heitu vatni hefur aukist mikið með tilheyrandi álagi á hitaveiturnar.

Þetta kom fram í máli Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku, en hún var í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 vegna opins fundar sem Samorka hélt í gær í Hörpu um stöðu hitaveitna og jarðhitaauðlindarinnar undir yfirskriftinni „Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til?“ Á fundinum var rætt um það að notkun á heitu vatni hefur farið vaxandi ár frá ári og hefur hún aukist umfram fjölgun íbúa í landinu og þrátt fyrir framfari í einangrun húsa en þessi aukning er mikil áskorun fyrir hitaveitur í landinu.

2000 nýir pottar á skömmum tíma

Í viðtalinu kom Lovísa inn á heitapottseign landsmanna og tók Akureyri sem dæmi. „Á Akureyri eru komnir 2000 nýir pottar á mjög skömmum tíma og það er meira en 10% allra íbúa, þannig að meira en tíundi hver íbúi er með heitan potti,“ sagði Lovísa í viðtalinu á Rás 2. Benti hún á að í venjulegum fimm manna potti séu 16 hundruð lítrar.

Lovísa sagði að frá árinu hefði orðið 33% aukning á heitavatns notkun landsmanna með tilheyrandi álagi á hitaveiturnar sem vart anna núverandi ástandi. „Staðan er svolítið þung hjá hitaveitunum að anna núverandi eftirspurn og ég tala nú ekki um ef þróunin verður áfram eins og hún lítur út fyrir að ætla að verða. Það eru áætlaðar íbúðir í byggingu út um allt land og fólksfjölgun mun ekkert alveg hætta á næstunni.“

Þá sagði Lovísa að hitaveiturnar hefðu verið hugsaðar til þess að hita hús og fólk vill að þessi grunnþjónusta verði til staðar fyrir alla til framtíðar. „Tími þessarar óábyrgu hegðunar orkunotkunar er bara liðinn sem betur fer, og út um allan heim. Við þurfum bara að fara að skoða hvernig við förum með auðlindina okkar og gera okkar til að koma í veg fyrir að við þurfum alltaf að ganga lengra og lengra á náttúruna.“ 

Mikinn fjölda heitra potta bar á góma en Lovísa kveðst alls ekki vilja skamma fólk fyrir að eiga slíkan pott; um að gera sé að njóta þeirra lífsgæða, en mikilvægt að vera meðvitaður um orkunotkunina sem hann kallar á, til dæmis með því að nota pottinn ekki á köldustu dögunum.

Viðtalið við Lovísu má heyra í heild sinni hér á vef RÚV