Fréttir
Megum ekki vera hrædd við fjölbreytnina
16.08.2024 kl. 07:00
Mynd úr kirkjugarðinum og merki Kirkjugarða Reykjavíkur: Skjáskot af RÚV
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sjúkrahúsprestur og fyrrverandi sóknarprestur í Akureyrarkirkju, telur nýtt merki Kirkjugarða Reykjavíkur fallega hannað en ekki síður fallega hugsað. Krossinn hefur verið tekinn úr merkinu.
„Tilgangurinn með breytingunni er sá að sýna öllum virðingu sem leita til kirkjugarðanna um þjónustu á viðkvæmum og erfiðum tíma í lífi sínu,“ segir séra Svavar í grein sem Akureyri.net birtir í dag.
Þá eru uppi hugmyndir hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur að tala frekar um minningarreiti en kirkjugarða enda séu þeir fyrir alla - ekki aðeins kristið fólk.
„Mikill meirihluti íslenskra kirkjugarða er það sem í orðinu felst: Garður við kirkju,“ segir Svavar Alfreð. Það eigi bæði við um kirkjugarðinn við Lögmannshlíðarkirkju á Akureyri og hinn kirkjugarð bæjarins, á Naustahöfða. „Hann var upphaflega tengdur fyrstu kirkjunni á Akureyri sem stóð neðan höfðans.“ Að sinni hyggju sé því eðlilegt „að tala um kirkjugarða hér á Akureyri en þau sem kjósa annað geta að sjálfsögðu notast við hið gamla og góða orð grafreitur.“
Séra Svavar Alfreð varar við öfgum. Þeir séu víða, „hvort sem þær eru í nafni trúar, trúleysis eða annarra lífsskoðana. Ísland verður sífellt margbrotnara og fjölbreytilegra. Hér býr fólk sem aðhyllist allskonar trúarbrögð og kemur úr ólíkum menningarheimum. Ef þetta nýja og fjölskrúðuga Ísland á að halda áfram að vera friðsælasta land heimsins megum við ekki vera hrædd við fjölbreytnina. Við skulum sýna hana og vera stolt af henni. Leyfum ólíkum táknum að lifa í umhverfi sínu og allri sinni merkilegu sögu og látum þau ráða för sem vilja vera upptekin af því sem sameinar okkur en ekki öfgafólkið sem vill sundra okkur.“