Fara í efni
Fréttir

Maskína: Miðflokkur með lang mest fylgi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og þingmaður Norðausturkjördæmis. Mynd af vef Miðflokksins.

Miðflokkurinn mælist með langmesta fylgið í Norðausturkjördæmi í könnun sem Maskína birti í gær. Þetta kemur fram á vef Austurfréttar. Ljóst er þó að mikil hreyfing er á fylgi flokkanna eftir stjórnarslitin síðasta sunnudag, segir í fréttinni.

Könnun Maskínu var gerð dagana 2. – 18. október. Hún er brotin niður eftir kjördæmum og er töluvert stór, í Norðausturkjördæmi eru 223 svör.

  • Miðflokkurinn mælist stærstur með 23,6% og þrjá þingmenn. Ekki vantar mikið upp á þann fjórða. Flokkurinn fékk einn þingmann í kjördæminu í kosningunum 2021, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
  • Samfylkingin mælist með 16,4% og tvo þingmenn en fékk einn síðast, Loga Einarsson.
  • Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mælast í kringum 14% og tvo þingmenn hvor. Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvo síðast, Njál Trausta Friðbertsson og Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, en Framsókn þrjá, Ingibjörgu Isaksen, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Þórarin Inga Pétursson.
  • Flokkur fólksins kemur að einum þingmanni með 8,3%. Flokkurinn fékk einn þingmann síðast, Jakob Frímann Magnússon.

Aðrir flokkar mælast ekki með þingmann. VG fékk tvo þingmenn síðast, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur og Jódísi Skúladóttur, en kemur ekki inn manni skv. þessari könnun. Næstur inn skv. könnuninni er fyrsti þingmaður Viðreisnar á kostnað annars þingmanns Framsóknarflokksins.

Nánar á vef Austurfréttar