Fara í efni
Fréttir

Markmiðin nást ekki nema öll leggist á árar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í Hofi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fundaröð um sjálfbærni hérlendis hófst í Hofi á Akureyri í dag en á næstu vikum verður fundað hér og þar í því skyni að ræða við landsmenn „um það hvernig við getum skapað sjálfbært Ísland,“ eins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra orðaði það í opnunarerindi í dag.

„Það er risastórt verkefni í þeim skilningi að það snertir flesta fleti mannlegs lífs; það snýst um hvernig samfélag við byggjum, það snýst um hvernig við stjórnum efnahagslífi okkar, snýst að sjálfsögðu um umhverfis og loftslagsmál. Það snýst í raun og veru um samfélagsgerðina,“ sagði Katrín.

Drög að grænbók um sjálfbært Ísland verða til umfjöllunar á fundunum. Drögin voru kynnt á fundi Sjálfbærniráðs sem fram fór í Safnahúsinu í Reykjavík á dögunum og voru birt í Samráðsgátt stjórnarráðsins í dag. Bókin sú arna, fyrsta skrefið í mótun stefnu Íslands um sjálfbæra þróun, er unnin í samráði stjórnvalda við sveitarfélög, atvinnulíf, samtök launafólks og fjölda félagasamtaka enda segir forsætisráðherra mikilvægt að allir komi að vinnunni.

„Tilgangurinn með þessum fundum er að opna samtalið og fá fleiri sjónarmið að borðinu þannig að þegar við göngum frá grænbókinni verðum við komin með tiltölulega mikla heildarsýn á það hvernig staðan er; hvað við teljum mikilvægustu verkefnin til að við náum fram markmiðum okkar um sjálfbært samfélag og hvað hver og einn getur lagt af mörkum í því. Það er alveg ljóst að munum ekki ná þessum markmiðum nema leggjast öll á árar, ríki, sveitarfélög, einkageiri, við sem einstaklingar, frjáls félagasamtök og að sjálfsögðu samtök laukafólks,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Eftir inngangserindi var fundargestum skipt upp í umræðuhópa þar sem fjallað var um einstök viðfangsefni og fór forsætisráðherra á milli borða.

Katrín sagði heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leiðarvísi í þessari vinnu, markmið sem margir þekki „en okkur finnst stundum afbstrakt og fjarlæg og hugsum, hvað hefur þetta með okkur að gera? En í raun getum við heimfært markmið Sameinuðu þjóðanna á flest svið þess samfélags sem við búum í, til þess að nýta sem leiðarvísi.“

Sjá meira hér um fundaröðina

Smellið hér til að sjá upptöku af erindunum sem flutt voru á fundinum í dag

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor emeritus, hélt stutt erindi á fundinum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson