Manni kastað af svölum og lögreglu ógnað

Lögreglan á Norðurlandi hefur miklar áhyggjur af aukinni ofbeldishegðun. Þetta kemur fram í færslu á Facebook síðu embættisins í dag og þar eru nefnd nokkur verkefna embættisins síðustu helgar:
- Manni var kastað fram af svölum
- Ekið var á mann af ásetningi þar sem hann var gangandi á göngustíg
- Við fyrirhugaða handtöku ökumanns sem lögregla veitti eftirför ók sakborningurinn fyrirvaralaust á lögreglubíl og voru tveir lögreglumenn, sem stóðu við bílinn, í mikilli hættu.
- Við handtöku ógnaði maður lögreglumanni með hnífi í miklu návígi svo ekki mátti muna miklu að illa færi.
Vopnaburður tekinn föstum tökum
Fram kemur í færslunni að undanfarið hafi verið lagt hald á mikið af fíkniefnum og að í gangi séu rannsóknir er lúta að skipulagðri brotastarfsemi. „Þá eru ótalin heimilisofbeldismál, líkamsárásir og kynferðisbrot sem eru því miður veruleiki,“ segir í færslunni.
Af gefnu tilefni er minnt á að vopnaburður á almannafæri er bannaður og viðurlögin séu að lágmarki 150.000 kr. sekt og færsla á sakaskrá við fyrsta brot. Fram kemur að sama sé hvort viðkomandi beri vopnið sýnilega eða innanklæða og að lögreglan á svæðinu muni beita sér sérstaklega gegn hvers kyns vopnaburði með það að leiðarljósi að tryggja öryggi lögreglumanna og almennings.
Færslan á facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Skjáskot