Fara í efni
Fréttir

Málum hagað eftir stemningu dagsins?

Í Múlagöngum. Þau uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru til nýrra ganga. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, segir bæjaryfirvöld árum saman hafa bent á að ástandið í Múlagöngum og Strákagöngum sé ekki boðlegt í nútíma samfélagi. Akureyri.net ræddi við Elías í framhaldi umfjöllunar um ástand öryggismála um helgina, en þá kallaði slökkviliðsstjórinn í Fjallabyggð Múlagöngin dauðagildru.

„Göngin voru klárlega mikil samgöngubót þegar þau voru tekin í notkun árin 1967 og 1990, en eru ekki ásættanleg nú enda bæði göngin barn síns tíma. Umferð um göngin hefur aukist mjög og fólk gerir eðlilega ríkari kröfur til samgöngumannvirkja nú en þegar þau voru tekin í notkun,“ segir Elías í gær. Hann tók við starfi bæjarstjóra snemma á síðasta ári og kveðst töluvert hafa hamrað á Vegagerðinni frá því að hann hóf störf, rétt eins og forverar hans hafi gert á undan honum.

Gildir ekkert regluverk?

Í bréfi sem Vegagerðin sendi slökkviliðsstjóranum í Fjallabyggð síðastliðið haust og Akureyri.net sagði frá í gær, segir að reglugerð um öryggiskröfur gildi ekki fortakslaust um göng á Tröllaskaga þar sem þau séu ekki hluti samevrópska vegakerfisins. Elías kannast við þennan málflutning en spyr:

„Ef sú reglugerð gildir ekki fortakslaust hvaða reglur gilda þá? Ef þetta sjónarmið Vegagerðarinnar á við rök að styðjast þá verður ríkið að skýra út fyrir okkur hvaða reglur gilda og eftir hverju skuli fara við mat á öryggi eldri jarðgangna. Er Vegagerðin ef til vill að halda því fram að um fern göng í Fjallabyggð gildi ekkert regluverk og hún geti hagað málum eftir eigin vild og stemningu dagsins?“

Vegagerðin bendir á í bréfinu að öll göng á Tröllaskaga hafi verið byggð með hliðsjón af norskum staðli á þeim tíma sem þau voru á hönnunarstigi en ekki sé af Vegagerðinni litið svo á að staðlarnir gildi afturvirkt. „Ég hef heyrt þetta og finnst það nokkuð sérstakur málflutningur. Ef þetta sjónarmið Vegagerðarinnar stenst þá er augljóslega eitthvað að í lagaumgjörðinni, eitthvað sem Alþingi þarf að skoða og færa til betri vegar,“ segir Elías og minnir á að önnur göngin séu frá 1967, hin frá 1990. „Vegagerðin má eiga það að hún hefur reynt að gera eitthvað en ég hef á tilfinningunni að oft sé reynt að gera sem minnst, stutt þeim rökum að núgildandi regluverk gildi ekki eða að úrbætur sé kostnaðarsamar.“

Ábyrgðin er Alþingis

Elías vísar einnig í þau rök Vegagerðarinnar að ekki sé til fjármagn til endurbóta í göngunum. Spyr hvort slík rök dugi fólki þegar það þurfi að huga að eigin öryggismálum. Hvort sá sem eigi gamlan bát eða gamlan bíl get sleppt því að endurnýja öryggisbúnað vegna þess hve dýrt það sé. Svar hans er örstutt og laggott: Nei.

„Skýrt er að Alþingi ber ábyrgð á lagasetningu er varðar öryggi samgöngumannvirkja sem og fjárveitingum til endurbóta á þeim,“ segir Elías. „Alþingi ber því á endanum ábyrgð á ástandinu og getur bætt úr.“

Slökkviliðsstjóri: Göngin „dauðagildra“

Svör Vegagerðarinnar