Málþing um öryggi og varnir á norðurslóðum
Varðberg, félag um vestræna samvinnu og alþjóðamál, stendur fyrir málþingi um öryggi og varnir á norðurslóðum fimmtudaginn 25. janúar næstkomandi. Málþingið er haldið í samstarfi við Norðurslóðanet Íslands (IACN) og Háskólann á Akureyri. Málþingið sem fer fram á ensku verður í sal M101 í háskólanum en er einnig streymt.
Málþing verður frá kl. 13.00 til 16.00 í sal M101 í Háskólanum á Akureyri.
Málstofan miðar að því, segir í tilkynningu, að skapa vettvang fyrir málefnalega umræðu um öryggisþróun á norðurslóðum. Leitast verður við að svara:
- Hvaða áhrif árásarstríð Rússlands í Úkraínu hefur á samstarf ríkja á norðurslóðum.
- Hverjar eru afleiðingar aukinnar hernaðaruppbyggingar Rússlands á norðurslóðum?
- Hvaða afleiðingar mun aðild Finna og væntanlega Svía að Atlantshafsbandalaginu hafa á langtímasamstarf ríkja á Norðurslóðum.
Fyrirlesarar á málþingi verða:
- Njord Wegge, prófessor við Norska varnarmálaháskólann. Erindi hans ber heitið: Great power rivalry in a divided Arctic – The defence of NATO’s northern flank in a new era.
- Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor í norðurfræðum við Norðurslóðaháskólann í Noregi (UiT) og prófessor í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri.
- Matthew Bell, skólastjóri við Ted Stevens Center for Arctic Security Studies. Erindi hans ber heitið: Advancing Solutions to Arctic Maritime Security.
Ávarp flytur:
- Tønnes Svanes sem hefur verið staðgengill sendiherra norska sendiráðsins í Reykjavík síðan í ágúst 2021. Hann hefur starfað í norska utanríkisráðuneytinu frá árinu 1988, að mestu við málefni Evrópusambandsins, Evrópska efnahagsvæðisins og efnahagsmál, í Haag, Hollandi og Brussel, Belgíu. Svanes er með MA í félagsvísindum frá Háskólanum í Bergen, Noregi.
Brynja Huld Óskarsdóttir sérfræðingur á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins er fundarstjóri málstofunnar.
Norska sendiráðið á Íslandi býður til móttöku að málþingi loknu.
Málþinginu verður streymt á neti Háskólans á Akureyri á vefsetrum Norðurslóðastofnana, vef Morgunblaðsins MBL og víðar.
Fundurinn er opinn öllum þeim er skrá sig til þátttöku á hlekknum:
https://www.shareyournorth.is/events/security-and-defence-in-the-high-north
_ _ _
Í fréttatilkynningu segir um þau sem að framan voru nefnd:
Njord Wegge, prófessor í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum í Norska varnarmálaháskólanum. Wegge gegnir hlutastöðu sem prófessor í jarðfræði við Norðurslóðaháskóla Noregs í Tromsö en þar lauk hann doktorsprófi árið 2013, með áherslu á alþjóðasamskipti á norðurslóðum. Hann hefur birt mikið af greinum sem tengjast öryggi og hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum, blendingshernaði, leyniþjónustu, lýðræðislegu eftirliti með leyniþjónustum og njósnaaðferðum. Hann starfaði sem gestafræðimaður í sjóhernaðarháskólanum í Quantico í Bandaríkjunum árið 2022 og gegndi stöðu formanns „norðurskautsöryggismála“. Hann var auk þess gestafræðimaður í U.C. Berkeley árið 2009. Í dag leiðir Wegge nokkur rannsóknarverkefni sem snúa að öryggi og hervaldi á norðurslóðum. Njord Wegge var fræðimaður við stofnun Fridtjof Nansen 2012–2014 og við Norsku alþjóðamálastofnunina (NUPI) 2017–2019. Hann var einnig ritstjóri tímaritsins „Arctic Review on Law and Politics“ frá 2013–2019.
Matthew Bell, fyrrverandi yfirmaður sautjánda strandgæsluumdæmis Bandaríkjanna í Juneau, Alaska, undiraðmíráll (eftl.). Bell er deildarforseti norðurskautsöryggisfræða í Ted Stevens, en þar ber hann ábyrgð á stjórnendafræðsluáætlun um valdajafnvægi á norðurskautssvæðinu, og um sameiginlega nálgun að svæðisbundnu öryggi og virðingu fyrir gildandi regluskipan alþjóðasambandsmála. Langur ferill Bell í strandgæslu Bandaríkjanna felur í sér fjölmargar aðgerðir í Alaska, en þar var hann ábyrgur fyrir aðgerðum strandgæslunnar um Alaska, Norður-Kyrrahafið, Beringshafið og um Íshafið. Bell útskrifaðist frá háskóla Norður Arizona, með BA-gráðu árið 1984 og MA-gráðu í efnafræði árið 1993. Hann gekk til liðs við Strandgæsluna árið 1985 að loknu námi í herforingjaskóla. Hann er útskrifaður úr þjóðarviðbúnaðarnámi við Harvard-háskólann.
Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor í norðurslóðafræðum við Norðurslóðaháskóla Noregs í Tromsö. Hann var Nansen prófessor í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri árin 2022-2023. Hann er danskur ríkisborgari, ólst upp í Reykjavík og hefur sterka tengingu við Norður-Atlantshafið og norðurslóðir. Rasmus hefur stundað nám í Kaupmannahöfn, Reykjavík, Genf, Lausanne og Amsterdam og með doktorsgráðu í Cambridge háskóla. Rasmus var póst-doktor við Harvard-háskólann, Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Yokohama, og í Álaborgarháskóla. Rannsóknir hans snúa einna helst að alþjóðasamböndum, norðurslóðaskipan, og þverþjóðlegt flæði þekkingar milli vesturs og austurs.
Tønnes Svanes hefur verið staðgengill sendiherra norska sendiráðsins í Reykjavík síðan í ágúst 2021. Hann hefur starfað í norska utanríkisráðuneytinu frá árinu 1988, að mestu við málefni Evrópusambandsins, Evrópska efnahagsvæðisins og efnahagsmál, í Haag, Hollandi og Brussel, Belgíu. Svanes er með MA í félagsvísindum frá Háskólanum í Bergen, Noregi.
Brynja Huld Óskarsdóttir starfar sem sérfræðingur á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Brynja Huld hóf starfsferil sinn á fréttastofu ríkisútvarpsins og hefur varið stórum hluta ferils síns í störfum tengdum upplýsingamiðlun um málefni sem snúa að öryggis- og varnarmálum eða þróunarverkefnum, til dæmis sem herferðarstýra hjá UN Women og sem ráðgjafi í stefnumiðuðum samskiptum í verkefnum Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Áður hefur hún sinn greiningarstörfum hjá Janes Defence Intelligence í London og sinnt stundakennslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Brynja Huld er menntaður öryggis- og varnarmálasérfræðingur frá University College London og árið 2021 lauk hún framhaldsdiplóma í afvopnunarfræðum og samningatækni hjá Arms Control Negotiation Academy frá Davis Center for Russian and Eurasian Studies við Harvard háskóla.