Fara í efni
Fréttir

Málningin „heim“ í gamla Sjafnarhúsið

Ómar Gunnarsson stofnandi og framkvæmdastjóri Sérefna.

Málningarandinn mun svífa um gamla Sjafnarhúsið á Akureyri á ný innan tíðar, nú á vegum Akureyringsins Ómars Gunnarssonar efnaverkfræðings sem starfaði þar á sínum tíma hjá Efnaverksmiðjunni Sjöfn.

Sjafnarhúsið heitir nú Norðurtorg og er verslanakjarni eins og þeir vita sem eiga viðskipti við Bónus, Ilva, Rúmfatalagerinn og Sports Direct. Það var hins vegar áðurnefnd Sjöfn sem byggði húsið á sínum tíma, þar var m.a. framleidd vel þekkt málning og nú snýr málning á ný í húsið, reyndar ekki framleidd á staðnum heldur seld.

Verslunin Sérefni í Kópavogi, sem Ómar stofnaði vorið 2006, hefur tekið 330 fermetra rými á Norðurtorgi á leigu, fær húsnæðið afhent 1. desember og verslun verður opnuð á nýju ári. 

„Við ætlum að setja upp verslun eins og við erum með á Dalvegi í Kópavogi. Ekkert verður undanskilið hvað varðar þjónustu og vöruúrval,“ sagði Ómar í samtali við Akureyri.net eftir að hann skrifaði undir samning við Klettás, eiganda hússins, um leigu á verslunarplássi á Norðurtorgi.

Verslun Sérefna verður þar sem húsið er merkt með rauðu; á akureyrsku er þetta suðaustur horn hússins!

Ómar er Akureyringur eins og áður segir, alinn upp í Þorpinu, Árný Helga Reynisdóttir eiginkona er Hríseyingur. Bæði voru í MA á sínum tíma, Árný Helga kenndi þar síðar um árabil en starfar nú við hlið eiginmannsins í fjölskyldufyrirtækinu. „Ég byrjaði að vinna í Sjöfn á Akureyri 1997. Það var svo í september 2001 sem við sameinuðumst málningarverksmiðjunni Hörpu í Reykjavík og einum fundanna vegna sameiningarinnar mun ég aldrei gleyma; hann var 11. september og á miðjum fundi fengum við fréttir af hryðjuverkaárásinni á New York,“ segir Ómar.

Dóttir hjónanna, Unnur Ómarsdóttir, og tengdasonurinn Einar Rafn Eiðsson, munu sjá um reksturinn. Unnur er alin upp á Akureyri og þau hjón fluttu norður fyrir nokkrum misserum til þess að spila handbolta, Unnur með KA/Þór og Einar Rafn með KA.

Þegar Sérefni voru stofnuð tók fyrirtækið við sölu og ráðgjöf á International skipa-, smábáta-, eldvarnar- og iðnaðarmálningu frá Hörpu Sjöfn. Síðan hefur hvert vörumerkið af öðru bæst við. „Ég var búinn að fá nóg af því að vinna fyrir aðra,“ segir Ómar og bætir við að mjög gott sé að vera eigin herra. „Við ráðum okkar sjálf, það eru engir erlendir aðilar sem stjórna okkur. Við höfum byggt fyrirtækið upp með mikilli vinnu og dugnaði, hér hefur byggst upp mikil þekking, við erum með gríðarlegt vöruúrval og frábæra birgja. Við teljum okkur vera með eins góða vöru og heimurinn býður upp á!“

Nú starfa hátt í 30 manns hjá fyrirtækinu. 

Vel við hæfi! Merki málningarverksmiðjunnar Sjafnar á gólfi húsnæðisins þar sem hin nýja verslun Sérefna verður.

„Það er algjörlega á hreinu að við ætlum að gera þetta vel og af virðingu gagnvart okkar heimafólki; ég fer aldrei hálfa leið!“ segir Ómar. „Það verður ekki boðið upp á pöntunarþjónustu; ég ætla ekki að segja við kúnnana mína: varan er í Reykjavík og kemur á morgun. Á Akureyri verður full þjónusta, nákvæmlega eins og hér fyrir sunnan. Við erum með gríðarlegt úrval af öllum efnum og þannig skal það vera líka fyrir norðan. Húsnæðið er frábært og við sjáum gríðarleg tækifæri. Það er mikil og falleg uppbygging framundan á Akureyri og við ætlum okkur að taka þátt í henni.“

Hann lýsir yfir mikilli ánægju með samstarfið við Akureyringinn Pétur Bjarnason og Ara son hans hjá Klettási, eiganda húsnæðisins. „Viðmót þeirra feðga er frábært. Þar koma aldrei upp vandamál sem ekki er hægt að leysa. Ég hlakka til að vinna áfram með þeim,“ segir Ómar Gunnarsson.

Smellið hér til að sjá heimasíðu Sérefna

Ari Pétursson frá Klettási, Árný Helga Reynisdóttir og Ómar Gunnarsson eftir að þau undirrituðu samning um leigu á húsnæðinu á Norðurtorgi.