Fara í efni
Fréttir

„Mála eins og náttúran kemur mér fyrir sjónir“

SÖFNIN OKKAR – 61

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Freymóður Jóhannsson (1895-1973)
Akureyri
1929
Olía á striga

Freymóður Jóhannsson fæddist á Árskógsströnd, en flutti með fjölskyldu sinni inn til Akureyrar á barnsaldri. Listhæfileikar hans komu í ljós þegar hann gekk í Gagnfræðaskólann og nam teikningu hjá Stefáni Björnssyni. Freymóður hélt til Danmerkur þar sem hann lærði húsamálun hjá Ástu málara, en nam jafnframt leiktjaldagerð og fór síðar til Ítalíu til náms í listmálun. Þegar heim var komið starfaði Freymóður sem málarameistari og var áberandi í leikhúslífinu þar sem hann samdi leikrit, leikstýrði og málaði leiktjöld, en sinnti einnig myndlistinni. Hann stóð fyrir námskeiðum í teikningu og málaralist og hélt fjölda einkasýninga heima og erlendis. Síðar samdi Freymóður söngtexta og grípandi dægurlög, sem sum hver urðu afar vinsæl, undir listamannanafninu Tólfti september.

Megin viðfangsefni Freymóðs var íslenskt landslag og mörg verka hans voru frá Akureyri og nágrenni. Hann túlkaði landslag á raunsannan hátt og hefur getið sér orð í íslenskri listasögu sem fulltrúi hins ljósmyndalega natúralisma. Hann var einnig afkastamikill portrettmálari.

Um verk sín sagði Freymóður: „Ég mála eins og náttúran kemur mér fyrir sjónir. Ég þykist einnig hafa leyfi til að yrkja um hana á minn hátt eins og aðrir á sinn. Sjái ég t.d. meiri glæsileik, en aðrir í einhverjum stað, reyni ég auðvitað að mála hann þannig eins og ég sé hann.“