„Maður breytir ekki til mikið seinna“
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sem verið hefur sóknarprestur í Akureyrarkirkju í 23 ár, lætur af því starfi um áramót eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Hann færir sig þá um set og hefur störf sem prestur á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk).
„Það er gott að breyta aðeins um takt og verður gott að hafa meiri og öðruvísi tíma til að sinna sjálfum sér og ýmsum hugðarefnum. Starfið á sjúkrahúsinu getur líka verið mjög erilsamt en það er annar taktur í því en hér,“ sagði séra Svavar við Akureyri.net í morgun.
Svavar er 62 ára. „Ég er samt ekki kominn að fótum fram, þótt ég sé að fara upp á spítala!“ segir hann og hlær.
Svavar hefur starfað sem prestur síðan 1986 þegar hann varð sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli. Hann er fæddur á Akureyri 1960, varð stúdent frá MA og las síðan guðfræði í Háskóla Íslands og við Kirchliche Hochschule Bethel í Bielefeld í Þýskalandi. Kandídatsprófi í greininni lauk hann 1986 og stundaði framhaldsnám við háskólann í Göttingen í Þýskalandi frá 1992 til 1994.
Óvænt í Akureyrarkirkju
Eiginkona Svavars er Bryndís Björnsdóttir. „Við giftum okkar 1982, þá í stúdentalífinu, en síðan Bryndís flutti til mín til Ólafsfjarðar 1987, ári eftir að ég hóf þar störf, hef ég alltaf unnið eitthvað um jól og páska og yfirleitt eitthvað um helgar,“ segir Svavar en gera má ráð fyrir að breytingin verði ekki síður mikil fyrir Bryndísi en hann sjálfan. „Núna reynum við prestarnir að skipuleggja starfið þannig að við eigum öll eina fríhelgi í mánuði,“ segir hann. Prestar í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli eru þrír: „Við Hildur Eir Bolladóttir höfum sérstakar skyldur við Akureyri og Jóhanna Gísladóttir við sveitirnar, en hún býr einmitt í Eyjafjarðarsveit.“
Svavar réðist til Ólafsfjarðarprestakalls 1986 sem fyrr segir en vorið 1995 fluttu þau hjónin til Akureyrar og hann varð héraðsprestur. „Þá sinnti ég fræðslumálum og hafði líka sérstakar skyldur við Grímsey. En ég var í raun nýbyrjaður í því starfi þegar séra Þórhallur Höskuldsson féll frá, hluti af starfi héraðsprests var að vera í afleysingum þannig að ég kom í Akureyrarkirkju í stað séra Þórhalls og var kosinn prestur hér haustið 1995 við hlið séra Birgis Snæbjörnssonar, sem hafði skírt mig og fermt mig. Þegar hann hætti tók ég síðan við af honum sem sóknarprestur, árið 1999.“
Þjóðkirkjan greiðir í fyrsta skipti
Prestur hefur ekki verið í föstu starfi á Sjúkrahúsinu á Akureyri síðan Guðrún Eggertsdóttir hætti þar fyrir nokkrum árum.
„Valgerður Valgarðsdóttir djákni byggði á sínum tíma upp trúarlega þjónustu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, eins og stofnunin hét þá, og mikill áhugi var bæði hjá kirkjunni og spítalanum að fá prest þangað til starfa aftur núna,“ segir Svavar. „Niðurstaðan varð sú að ég skipti um starfsvettvang; fyrirkomulagið er þannig að Þjóðkirkjan og SAk hafa gert með sér þjónustusamning og ég færist til í starfi. Þetta er í fyrsta skipti sem Þjóðkirkjan greiðir fyrir prest á SAk, spítalinn hefur áður greitt fyrir þá þjónustu.“
Á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eru sex stöður presta og djákna og Þjóðkirkjan greiðir fyrir eina þeirra.
Næg verkefni og mikil þörf
„Ég á eftir að sakna margs héðan úr kirkjunni en ég er orðinn 62 ára gamall og ef maður vill breyta til gerir maður það ekki mikið seinna. Þegar hugmyndin kviknaði og tækifærið bauðst þurfi ég auðvitað að hugsa mig svolítið um en ákvað svo að stökkva á þetta,“ segir séra Svavar.
„Ég þekki ágætlega til uppi á spítala vegna þess að í gegnum tíðina höfum við prestarnir þjónustað SAk mikið, sérstaklega eftir að Guðrún hætti,“ segir hann og ítrekar það sem hann sagði í upphafi að hann væri ekki komin að fótum fram! Ég er alls ekki að leggja árar í bát!“ segir Svavar kíminn. „Verkefnin eru næg á spítalanum og þörfin mikil – bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk.“