Fara í efni
Fréttir

Lyftan ekki tekin í notkun fyrr en í haust

Stólalyftan Fjarkinn fyrir miðri mynd, nýja lyftan - sem nær töluvert hærra í fjallinu - vinstra megin. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli verður ekki tekin formlega í notkun fyrr en í haust eða við upphaf næstu skíðavertíðar. Það hefur verið endanlega ákveðið.

Nokkrum sinnum hefur staðið til að vígja lyftuna og taka hana formlega í notkun í vetur, en ekki tekist af ýmsum ástæðum. „Sökum Covid og einstakrar óheppni með veður hefur ekki verið hægt að koma henni formlega í gagnið,“ segir Kristinn J. Reimarsson, sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrbæjar, við Akureyri.net.

Enn eru á blikur á lofti vegna kórónuveirufaraldursins eins og nýlegt, nærtækt dæmi sannar; aflýsa varð Andrésar andar leikunum, sem áttu að hefjast í gær og standa til morguns, vegna andstöðu Almannavarna. Því þykir ekki ráðlegt að stefna hópi fólks í fjallið.