Fara í efni
Fréttir

Lovísa sækist eftir 2.-3. sæti á lista Viðreisnar

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir sækist eftir 2.-3. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar til Alþingis 30. nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá henni í kvöld.

„Ég er 33 ára gömul búsett á Akureyri ásamt sambýlismanni mínum, Örvari Samúelssyni og sonum okkar tveimur. Foreldrar mínir eru Dóra Hrönn Gústafsdóttir og Eyvindur Sv. Magnússon, stjúpforeldrar Valdimar Tryggvason og Ólafía Sigurvinsdóttir. Ég hef búið víða um land, til dæmis fengið að njóta Mývatnssveitar og fengið að sýsla við ýmislegt á Þórshöfn en lengst af búið á Akureyri með góðum, stuttum styttri stoppum í Borgarnesi, Reykhólum og Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að Lovísa Oktovía er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, viðbótardiplómu í fjölmiðla-og boðskiptafræðum frá sama skóla og M.L.M. gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.

„Ég stunda M.ed kennsluréttindanám við Háskólann á Akureyri og áætla útskrift vor 2026. Á mínum starfsferli hef ég lengst af unnið við verslun og þjónustu, m.a. sem verslunarstjóri í The Body Shop og 66°North og viðskiptastjóri hjá Teya (áður Salt Pay). Ég hef líka unnið sem þjónn og á frystihúsi og frystitogara. Frá hausti 2023 hef ég starfað sem kennari á unglingastigi við Naustaskóla á Akureyri. Fyrir utan hefðbundna kennsluskyldu hef ég lagt mitt af mörkum við að koma inn nýsköpun inn í skólastarf, sem er eitt af mínum áhugasviðum. Í framboði mínu legg ég áherslu á fyrirsjáanleika, áræði til að leggja upp markmið og stefnu fyrir landið til framtíðar og frelsi með ábyrgð. Að lokum langar mig að minnast á þann mannauð sem býr í Norðausturkjördæmi, seiglu og hugmyndaauðgi sem frjálslynd stefna Viðreisnar talar svo sterkt til. Þar eru stefnumál sem vinna að því að jafna tækifærin fyrir okkur öll og frelsi til að nýta það eins og við viljum. Ég vil að rödd ungs fólks fái að heyrast hærra í þessu kosningum en nokkurn tímann áður og mun leggja mig alla fram til þess að vinna að málefnum Norðausturkjördæmis fái ég brautargengi á lista Viðreisnar.“