Loksins ball en allir þurfa í hraðpróf
Fyrsta ballið eftir mjög langt hlé verður haldið í Verkmenntaskólanum á Akureyri næstkomandi fimmtudagskvöld, 30. september. Það stendur frá 21:00 til miðnættis og Emmsjé Gauti og DJ Elmar sjá um fjörið.
Hefð hefur verið fyrir því að halda nýnemaböll á haustin en það hefur hvorki verið hægt nú í ár, né í fyrra vegna Covid-19. Það eru því tveir árgangar sem fagna framhaldsskólagöngu að þessu sinni, ásamt öðrum skólafélögum.
Engar grímur
Viðburðurinn er grímulaus en ballgestir þurfa að framvísa neikvæðu Covid hraðprófi. Slík próf eru framkvæmd á Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Prófin eru ókeypis og það tekur innan við hálftíma að fá niðurstöðu.
Að sögn Péturs Guðjónssonar, viðburðastjóra VMA, hefur undirbúningur gengið hratt og vel fyrir sig. Nemendur telji að ekki þurfi mikinn undirbúning því allir séu tilbúnir að stökkva á ball. Stemningin er því almennt góð. Viðburðurinn verður í Miðgarði (M01) í húsakynnum Verkmenntaskólans á Akureyri.