Fara í efni
Fréttir

Lokanir vegna vinnu og leiðir strætisvagna

Malbikunarframkvæmdir hafa áhrif á umferð um Þórunnarstræti á morgun, miðvikudaginn 21. ágúst.

Töluvert hefur verið um lokanir gatna að undanförnu vegna malbikunarframkvæmda og hafa þær eðlilega haft áhrif á umferðina, meðal annars leiðir strætisvagna. Lokanir vegna vinnu á vegum Norðurorku við útskiptingu á brunnum og fleira í þeim dúr hafa einnig haft áhrif á umferð.

Tilkynnt hefur verið um lokanir á Facebook-síðum Strætisvagna Akureyrar og Akureyrarbæjar, sem og hjá Norðurorku. Akureyri.net hafði hins vegar spurnir af ökumönnum sem urðu fyrir óþægindum og fóru fýluferðir vegna ónákvæmra merkinga, til að mynda við það að velja sér aðra leið sem reyndist svo botnlangi vegna lokunar. Einn ökumaður sem hafði samband hugðist til dæmis fara af Byggðavegi, um Klettaborg og inn á Dalsbraut, vegna lokunar Þingvallastrætis, en kom þá að lokun við Dalsbrautina. Engin merking var við hinn enda Klettaborgarinnar um lokun við Dalsbrautina.

Strætisvegnar Akureyrar og Akureyrarbær hafa tilkynnt um eftirfarandi lokanir á morgun, miðvikudaginn 21. ágúst:

Nyrðri akrein Þórunnarstrætis verður lokuð frá Glerárgötu og rétt upp fyrir frárein að Gleráreyrum (Glerártorgi) frá kl. 8 að morgni, en stefnt að því að hleypa umferð á þann kafla upp úr hádegi.

Í framhaldi af því verður syðri akrein Þórunnarstrætis lokuð frá Glerárgötu upp að leikskólanum Hólmasól, en stefnt að því að hleypa umferð á þann kafla að kvöldi miðvikudags.

Áhrif á akstur strætisvagna
Leiðir 1 og 2 aka Kaupvangsstræti á meðan lokað er í Þórunnarstræti, frá kl. 8 í fyrramálið, en leið 1 ætti að geta ekið upp Þórunnarstrætið frá því upp úr hádegi þegar umferð verður hleypt á nyrðri (vestari) akreinina.


Loftkort þar sem lokanir í Þórunnarstræti á morgun, miðvikudaginn 21. ágúst, hafa verið merktar inn. Mynd af Facebook-síðu Akureyrarbæjar.

Gömlum hitaveitubrunnum skipt út

Gatnamót Mímisbrautar og Þórunnarstrætis hafa verið lokuð í nokkra daga vegna vinnu á vegum Norðurorku.

Þar er unnið að því að fjarlægja stóran brunn, við enda Mímisbrautar. Þetta er hluti af stóru viðhaldsverkefni á vegum fyrirtækisins, að því er fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu þess. Gamlir hitaveitubrunnar eru fjarlægðir úr kerfinu og til að bæta afhendingaröryggi, vinnuaðstæður og öryggi starfsfólks. Brunnurinn á mótum Mímisbrautar og Þórunnarstrætis er af stærri gerðinni. Að honum liggja sverar stofnlagnir sem flytja heitt vatn frá Laugalandi annars vegar og Hjalteyri hins vegar. Í stað hitaveitubrunns eru settir jarðvegslokar sem gera það að verkaum að starfsfólk þarf ekki lengur að fara ofan í hættulegan brunninn til að skrúfa fyrir loka, komi upp bilanir á aðliggjandi lögnum eða tengja þarf ný hús inn á þær. Þar kemur einnig fram að Norðurorka fagni því að gömlu brunnunum fari fækkandi.

Þess má geta að gatnamót Mímisbrautar og Þórunnarstrætis eru fjölfarin eftir að kennsla hefst í Verkmenntaskólanum, en fyrsti kennsludagur var einmitt í dag.