Lokað í Hlíðarfjalli – Beðið eftir frosti
Skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli, sem var opnað 4. janúar, hefur verið lokað í bili. Hlýindin undanfarna daga hafa gert það að verkum að snjórinn bráðnar hratt úr fjallinu og ekki er hægt að framleiða snjó nema í frosti.
Að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli er staðan í fjallinu ekki góð og ekki útlit fyrir snjóframleiðsluveður á næstunni. Því hefur sú ákvörðun verið tekin að loka fjallinu næstu daga. „Við höfum fengið rosalega lítið af úrkomu í vetur. Fjöllin í kringum okkur eru ekki hvít eins og maður er vanur. Við værum ekki búin að opna neitt ef við værum ekki með snjóframleiðslukerfið. Eini snjórinn sem er í fjallinu er sá sem við höfum búið til,“ segir Brynjar.
Besta í stöðunni að loka í bili
Þar sem ekki er hægt að framleiða snjó nema í frosti bíður starfsfólk skíðasvæðisins eftir því að hitatölur breytist. Brynjar Helgi játar að vissulega sé staðan svekkjandi, sérstaklega þar sem um 30 daga snjóframleiðsla með tilheyrandi undirbúningi lá að baki opnun skíðasvæðisins í byrjun janúar. „Við lokum frá og með deginum í dag og fram á fimmtudag, hið minnsta.“ Með lokuninni er verið að reyna að tryggja að snjórinn sem þó sé í brekkunum haldist í góðu ástandi. Ekki verður heldur opið fyrir skíðaæfingar. „Við erum ekki að keyra troðarana í hita. Það besta sem maður getur gert í svona tíð er að láta bara brekkurnar standa.“
Brynjar Helgi minnir þó á að veturinn sé alls ekki búinn og staðan getur breyst hratt eins og dæmin sanna. „Ég man eftir því fyrir tveimur árum síðan að ég held þá fengum við 10 stiga hita í 2 vikur í febrúar og svo mánuðinn á eftir fengum við mínus fimmtán gráður í 3 vikur, þetta er bara Ísland“, segir Brynjar Helgi vongóður. „Eina sem er jákvætt í þessu öllu er að við kláruðum vatnið úr lóninu okkar í snjóframleiðsluna en það fyllist nú aftur í þessari tíð, en ég myndi miklu frekar kjósa að þurfa ekki að fylla það. “
Frá fyrsta opnunardegi vetrarins í Hlíðarfjalli, þann 4. janúar. Mynd: Facebooksíða Hlíðarfjalls