Fara í efni
Fréttir

Loka á Akureyri vegna manneklu

Púkinn var lengi til húsa í göngugötunni á Akureyri en færði sig svo um set í Hafnarstræti 22 í október 2022 (áður Örkin hans Nóa). Mynd: fasteignir.is

Verslun Púkans á Akureyri hefur verið lokað og verslunarhúsnæðið auglýst til leigu eða sölu.

Púkinn sérhæfir sig í sölu og þjónustu á fatnaði og vörum fyrir vélhjóla-, reiðhjóla-, snjóbretta- og hjólabrettafólk. Verslunin hefur verið starfrækt á Akureyri í 7 ár en er einnig að finna í Reykjavík.

Tilkynnt var um breytingar á rekstri verslunarinnar á Akureyri í sumar og blásið til lagerhreinsunar í október. Athygli vekur að á Facebooksíðunni  Púkinn Akureyri  er greint frá því að verslunin leggur upp laupana fyrir norðan sé mannekla en þar segir orðrétt: 

Því miður gengur okkur ekki að manna verslunina okkar á Akureyri og þar sem við leggjum áherslu á framúrskarandi þjónustu og frábær verð (eða þau sömu og í Evrópu) þá gengur þetta ekki upp eins og staðan er í dag. Það gleður okkur því að tilkynna að ÚTISPORT sem er að opna nýja verslun að Glerártorgi mun taka við að þjónusta okkar helstu vörumerki á Akureyri -- FOX, LEATT, GHOST, STRO BMX ofl – eða öllu sem snýr að MTB, BMX, casual fatnaði og þjónustu á GHOST hjólum, við kvetjum ykkur til að fara í Útisport og panta aðrar vörur frá Púkanum eða hafa samband við okkur. Takk fyrir góður móttökur og samvinnu síðustu 7 ár.