Fara í efni
Fréttir

Lögreglan: Hvetjum fólk til að vera á varðbergi

Netsvindl hefur færst í aukana og fólk þarf að vera á varðbergi að sögn Skarphéðins Aðalsteinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Hann hvetur fólk til þess að vera vakandi gagnvart leigusvindli sem og öðru svindli á netinu.

Í gær birtist á Akureyri.net reynslusaga spænskrar konu á Akureyri sem varð fyrir barðinu á leigusvindlara og í morgun birtist saga þýskrar konu sem slapp með skrekkinn. Í báðum tilfellum reyndi maður undir fölsku nafni að leigja þeim íbúð á Akureyri sem ekki var til.

  • Smellið hér til að sjá umfjöllun um Ana Gómex Marmolejo í gær
  • Smellið hér til að sjá umfjöllun um Anna Lauenburger í morgun

Mikið af svindli á netinu

Akureyri.net lék forvitni á að vita hvort leigusvindl væri að aukast í bænum og leitaði svara hjá lögreglunni. Samkvæmt upplýsingum frá Skarphéðni Aðalsteinssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni, er ekki hægt að segja að slíkum málum sé að fjölga í bænum, þar sem aðeins eitt slíkt mál hefur komið inn á borð hjá lögreglunni nýlega. Hins vegar sé mikið af alls konar svindli í gangi á netinu. „Við hvetjum fólk til þess að vera á varðbergi hvort sem er gagnvart leigusvindli eða öðru svindli á netinu,“ segir Skarphéðinn og minnir fólk á að gefa ekki upp kortaupplýsingar eða millifæra peninga nema vera búið að tvítékka hlutina.

Mikið um falska reikninga

Skarphéðinn segir að mikið sé um fölsk skilaboð frá fölskum reikningum í gangi á netinu um þessar mundir. Það sé því nauðsynlegt að vera á tánum í öllum samskiptum á netinu til að verja sig gagnvart alls konar svindli. Ýmislegt sé til ráða til að tvítryggja sig. Hann hvetur t.d. fólk til þess að taka upp símann ef það fær skrítin skilaboð frá vinum sínum til að kanna hvort skilaboðin séu raunverulega frá viðkomandi. Eins má nota símann til þess að kanna hvort húsnæði sem auglýst sé til útleigu sé virkilega á umræddu heimilisfangi með því að fletta því upp á ja.is.

Spurður að því hvort það sé borin von að fólk sem verði fyrir peningasvindli á netinu fái peningana sína til baka þá segir Skarphéðinn að það sé alls ekki útilokað. „Það er auðvitað alltaf þyngra í vöfum þegar um er að ræða mál á milli landa en við erum í góðum tengslum við erlendar stofnanir og höfum ýmis tæki og tól til að taka á slíkum málum,“ segir hann og hvetur þá sem verða fyrir netsvindli að tilkynna það.