Logi – jafnaðarins föngulegi fánaberi
Logi Már Einarsson hætti sem formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins um helgina og Kristrún Frostadóttir var kjörin í hans stað.
Óhætt er að segja að Logi hafi verið kvaddur með virktum og hápunkturinn var þegar Helga Vala Helgadóttir alþingismaður flutti drápu sem hún hafði fengið Braga Valdimar Skúlason, Baggalút með meiru, til þess að semja um formanninn fráfarandi. Er þar vísað í eitt og annað; klæðaburð Loga og feril hans sem dansara hljómsveitarinnar Skriðjökla, svo eitthvað sé nefnt. Flutti Helga Vala drápuna með tilþrifum við hlátrasköll og hlaut að launum dúndrandi lófaklapp landsfundargesta.
Logi var bæjarfulltrúi á Akureyri þegar hann bauð sig fram til Alþingis 2016 og náði kjöri, var kosinn varaformaður Samfylkingarinnar á landsfundi sama ár og þegar Oddný G. Harðardóttir sagði af sér formennsku í kjölfar kosninganna varð Logi formaður.
Drápa Braga Valdimars sem Helga Vala flutti er svohljóðandi:
Elskulegur formaðurinn fráfarandi,
frábærasta eintakið á þessu landi.
Jafnaðarins föngulegi fánaberi,
fátæktar og ofsagróða niðurskeri.
— Logi, þú ert flippkisi og fagurkeri.
Ungur gerðist róttækur, með rauðleitt hjarta.
Reyndir ýmis meðöl, fyrir þína parta.
Sjónumhryggur barðist þá við sjónvarpsliti,
sjálfsagt ofurlítið fjarri þínu viti.
— En Logi, þú ert enguaðsíður æðibiti.
Seint mun verða hermt upp á þig agaleysi,
ef til vill í besta falli kragaleysi.
Innblásinn í tískuflík á þingi þusar
þó þyki jakkinn djarfur, syni Bernódusar.
— Því Logi yfir gamlar kreddur gleði gusar.
Þér skilgreiningar henta ekki, hvað þá kerfi.
Heimsmaður í akureyrsku dulargervi.
Að flokka þig í rétta gáminn veldur vanda;
veisluglöð, en stefnumiðuð partíblanda.
— Logi, þú ert einhverskonar kung–fu panda.
Gefandi og algerlega sneyddur snobbi.
Sniðugur, með óþol fyrir kallagrobbi.
Afþakkar með hlýju brosi kort og kransa,
kratahjartað óravegu frá að stansa.
— Logi, þú mátt aldrei, aldrei hætta að dansa.
Höfundur: Bragi Valdimar Skúlason
Efnisveita: Helga Vala Helgadóttir