Fara í efni
Fréttir

„Lögbrotið skóp mikinn sársauka“

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða Birni Þorlákssyni, blaðamanni og fyrrverandi upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar (UST) 6,8 milljónir króna í bætur. Þá er ríkinu gert að greiða Birni 2,5 milljónir í málskostnað.

Björn kærði ríkið fyrir ólögmæta niðurlagningu á starfi hans snemma árs í fyrra. Hann hafði þá unnið á starfsstöð UST á Akureyri síðan snemma árs 2017.

„Dómurinn er mjög afgerandi og skýr. Lögbrot Umhverfisstofnunar skóp mikinn sársauka, ekki bara hjá mér sem þolanda, þá enn við bága heilsu eftir alvarlegt beinbrot, heldur varð skaði barnanna minna og eiginkonu mikill, því uppsögnin þýddi að við þurftum að slíta okkur burt frá hinni yndislegu Akureyri okkar og leita vinnu á fjarlægum slóðum,“ sagði Björn við Akureyri.net eftir að niðurstaða Héraðsdóms lá fyrir í dag. Björn starfar nú sem blaðamaður á Fréttablaðinu í Reykjavík.

„Ég vona að nú sé nóg komið og forstjórinn láti staðar numið. Ég fyrirgef henni, því frelsi mannskepnunnar felst stundum í að dvelja ekki um of í biturð og reiði. Ég er sérlega þakklàtur Arndísi Bergsdóttur, konunni minni, Fræðagarði, BHM, lögmönnum mínum og öllu því fólki sem studdi við bak okkar, því mörgum blöskraði órétturinn,“ sagði Björn Þorláksson.