Lítill hinsegin sýnileiki á Akureyri
Regnbogafánar í tilefni Hinsegin daga eru í færri kantinum á Akureyri í ár, miðað við oft áður.
Akureyrarbær hefur áður sýnt hinsegin fólki samstöðu og stutt við mannréttindabaráttu þeirra með því að flagga regnbogafána við stofnanir í bænum og minna þannig á fjölbreytileika mannlífsins. Sýnileiki Hinsegin daga er hins vegar afar lítill í miðbænum í ár. Einn regnbogafáni er fyrir framan Ráðhúsið en enginn fáni er við Hof, né við Ráðhústorgið eða Amtsbókasafnið. Amtsbókasafnið hefur hins vegar sett upp útstillingarborð í sýningarrýminu bókasafnsins þar sem „hinsegin efni“ er til sýnis og útláns.
Dagskrá í Glerárkirkju
Bensínstöðvar Orkunnar í bænum flagga allar regnbogafána og þá má sjá fallega regnbogafána við Veganesti og við Nettó við Hrísalund. Eins er regnbogafáni á Eiðsvellinum, við sundlaugina og við Akureyrarkirkju. Ekki er víst að upptalningin sé tæmandi; fánar kunna að blakta víðar við hún.
Þá er ekki heldur mikil dagskrá á Akureyri í tengslum við Hinsegin daga ef frá er talin dagskrá í Glerárkirkju á morgun sunnudaginn 7. ágúst en milli kl. 16 og 20 verður þar boðið upp á upptökur af sögum hinsegin fólks af viðmóti þjóðkirkjunnar í gegnum árin. Klukkan 20 verður svo Regnbogaguðþjónusta í kirkjunni. Guðþjónustan er fyrir alla sem vilja standa með mannréttindum og manngildum.
Viðbót – Eftir að fréttin birtist barst Akureyri.net ábending sem vert er að nefna: á skátamóti sem stendur yfir á Hömrum eru margir með regnboga skátaklúta, nælur, merki og svo mætti lengi telja, auk þess sem mótsstjórnin flaggaði regnbogafána í morgun