Fara í efni
Fréttir

Fálkar leita til byggða vegna rjúpnaleysis

Dauði fálkinn sem fannst við andapollinn á Akureyri í dag. Ljósmynd: Margrét Sóley Matthíasdóttir.

Í þessum mánuði hafa sex dauðir eða deyjandi fálkar fundist hér á landi, þrír ungar og þrír fullorðnir, að sögn Ólafs Karls Nielsen, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Tveir fullorðnir hafa fundist á Akureyri, annar á þriðjudag og hinn í dag – nýdauður við andapollinn eins og HÉR má lesa um.

Ólafur segir að oftast þegar fálkar finnist dauðir séu það ungar, þeir eigi það til að lenda í hremmingum í upphafi vetrar. „Að þrír lífsreyndir fuglar finnist dauðir á svona skömmum tíma er hins vegar óvenjulegra og merkilegra, ekki síst þegar þeir drepast inni í miðjum bæ eins og á Akureyri og í útjaðri byggðarinnar á Seyðisfirði,“ segir Ólafur við Akureyri.net. Fyrir austan fannst dauður fugl á víðavangi á dögunum.

Þekkja ekki aðstæður

„Fyrsta tilgáta mín er sú að rjúpnaleysi sé um að kenna. Þá leita fuglarnir fanga á svæðum þar sem þeir eru ekki vanir að athafna sig. Fuglinn sem fannst á Ólafsvík [sem var ungi] var illa brotinn eftir að hafa flogið á girðingu og honum varð að lóga. Þar hafði smáfuglum verið gefið og hann virðist hafa ætlað að veiða sér til matar; þegar fálkinn veiðir kemur er oft á mikilli ferð til að koma bráðinni á óvart en þarna þekkti hann ekki aðstæður og flaug á girðingu.“

Ólafur segir fugla á andapollinum á Akureyri örugglega hafa dregið fálkann þangað í dag. „Þeir leita inn í þéttbýli vegna rjúpnaleysis og mér finnst ekki ósennilegt að þessi hafi flogið á girðinguna við pollinn,“ segir Ólafur. „Girðingar og línur reynast fálkanum oft hættulegar þegar hann stundar sína loftfimleika inni í bæjum. Aðal bráð fálkans er rjúpa en þeir taka allt frá þúfutittlingum upp í grágæsir. Og þegar mjög hart er í ári fara þeir í hræ, ekki bara fugla heldur líka kinda og þess háttar,“ sagði Ólafur Karl Nielsen.