LifeTrack – Nýtt norðlenskt heilsuapp
LifeTrack, heilsuapp hannað af hjónunum Inga Torfa Sverrissyni og Lindu Rakel Jónsdóttur, er nýkomið á markað. Smáforritið, sem er að stórum hluta framleitt í heimabyggð, er byltingarkennd nýjung fyrir öll þau sem vilja hugsa heildrænt um heilsuna.
Í appinu er að finna reiknivél sem reiknar næringarþörf og hjálpar fólki að finna út hvað það á að borða, hvort sem markmiðið er að léttast, þyngjast eða að styrkja sig. Þá eru þar líka æfingamyndbönd, hugleiðsluæfingar, jóga, hvetjandi fyrirlestrar, fræðsla um vítamín og dagleg verkefni sem styðja notendur til betra lífs. Fjölmargar hendur hafa komið að gerð appsins en athygli vekur að stór hluti þessa fólks er úr heimabyggð. Þannig sá fyrirtækið Stefna um tæknimálin, Axel Þórhallsson sá um myndbandagerð, norðlenskt listafólk á borð við Villa vandræðaskáld og Maríu Pálsdóttur lásu inn á fyrirlestra, Björk Óðinsdóttir, eigandi Norður er með æfingamyndbönd inn í appinu og akureyrski hlauparinn Anna Berglind Pálmadóttir er þar með hlaupaþjálfun og svona mætti lengi telja.
Í LifeTrack appinu er að finna stóran gagnagrunn af matvörum, bæði hrávörum og tilbúnum máltíðum, svo notendur þurfa aðeins að velja vörurnar og fá þá næringar útreikningana strax. Þá geta notendur einnig bætt inn nýjum vörum í gagnagrunninn.
Allsherjar lífstílsapp
Appið var formlega sett í loftið á fimmtudagskvöld af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, í lokuðu hófi þar sem eigendurnir fögnuðu áfanganum með sínum nánustu og þeim sem stutt hafa við gerð appsins á einn og annan hátt. Að sögn eigandanna hafa þau unnið markvisst að LifeTrack appinu undanfarið ár, en vinnan hefur í raun verið miklu meiri þar sem appið byggir á öllu því sem þau hafa verið að gera í gegnum fyrirtækið sitt ITS Macros undanfarin fjögur ár. Fyrirtæki þeirra, sem var stofnað árið 2020, hefur verið að aðstoða fólk við að taka heilsuna föstum tökum með réttu hugarfari, hreyfingu og réttu magni af næringarefnum. LifeTrack appið, tekur þessa vinnu þeirra upp á alveg nýtt plan en í gegnum appið fær almenningur í raun allsherjar lífsstílsþjálfun á einum stað, hvar sem er og hvenær sem er, svo lengi sem það er með símann á sér.
LifeTrack appið var formlega sett í loftið í fyrrakvöld. Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg en að stærstum hluta hefur vinnan við appið verið unnin í heimabyggð.
Notendavænt fyrir íslenskan markað
Að sögn Inga Torfa og Lindu Rakelar hafa Íslendingar mikið notað ameríska appið Myfitnesspal til að halda utan um mataræði sitt en það app er flókið og ekki sérlega notendavænt fyrir íslenskan markað. LifeTrack appið er að þeirra sögn mun einfaldara í notkun, auk þess sem það er algjörlega hannað með þarfir Íslendinga í huga. Fyrst og fremst er það á íslensku auk þess sem vörurnar í gagnagrunni appsins fást allar í verslunum á Íslandi og eru í íslenskum mælieiningum. Í stuttu máli slær fólk ákveðnar forsendur inn í LifeTrack appið sem reiknar út ákveðið magn næringarefna, kolvetna, próteins og fitu sem viðkomandi á að borða yfir daginn til að ná sínum markmiðum. Einnig er hægt að fylgjast einungis með hitaeiningum eða þá skrá bara næringuna inn án þess að horfa í neinar tölur, einungis halda matardagbók. Appið aðstoðar fólk við að ná sínum markmiðum á einfaldan hátt með því að bjóða upp á máltíðarbanka þar sem það þarf ekki að nota vigt frekar en maður vill. Í appinu er að finna stóran gagnagrunn af matvörum, bæði hrávörum og tilbúnum máltíðum, svo notendur þurfa aðeins að velja vörurnar og fá þá útreikningana strax. Þá geta notendur einnig bætt inn nýjum vörum í gagnagrunninn. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu LifeTrack.
- Akureyri.net ræðir nánar við Lindu Rakel og Inga Torfa um helgina þar sem þau útskýra appið betur og ræða um grunnatriði hvað varðar góða heilsu.