Fara í efni
Fréttir

„Lifandi húsið“ – Elsta ljósmynd af Gamla skóla

Mynd: Hallgrímur Einarsson/Minjasafnið á Akureyri

GAMLI SKÓLI – 1

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Útisamkomur af ýmsu tagi voru lengi haldnar á lóð skólans. Hinn 26. maí 1905 var haldin búfjársýning framan við Gamla skóla. Eins og sjá má var smíði hússins ekki lokið – lauk ekki fyrr en um haustið. Bárujárn vantar á þakenda og ekki hefur verið gengið frá gluggaumbúnaði, vindskeiðum né heldur skrauti á stafna.

Í blöðum er þess getið að á búfjársýningu þessari hafi rauðkollóttur boli, Herrauður, í eigu Stefáns Stefánssonar kennara, síðar skólameistara, hlotið fyrstu verðlaun. Til hægri á miðri mynd má sjá Stefán Stefánsson að baki bola. Fróðlegt er að virða fyrir sér klæðnað fólksins. Konur eru á peysufötum með sjal, karlmenn í jakkafötum með bindi eða þverslaufu og hatt en drengir í jakkafötum með derhúfu, sixpensara. Á miðri mynd er yngismær með barðastóran hvítan hatt, væntanlega frá Kóngsins Kaupinhafn.

Mynd: Hallgrímur Einarsson 1905/Minjasafnið á Akureyri

Fjærst sést íbúðarhúsið í Barði, lítið timburhús sem danskir náttúruvísindamenn undir forystu eðlisfræðingsins Adam F. W. Paulsen reistu í ágúst 1899 suður á Höfða, þar sem nú er kirkjugarður Akureyrar. Í húsinu voru rannsóknartæki sem notuð voru við norðurljósarannsóknir veturinn 1899 til 1900. Húsið var flutt í Barð sumarið 1900 og stóð til ársins 1970 þegar það var rifið.

Í Barði bjuggu lengi systurnar Jakobína og Kristrún Júlíusdætur, Bína og Rúna í Barði, en Rúna skúraði skólann hartnær hálfa öld. Bróðir þeirra var Olgeir, bakari og bóndi í Barði, faðir Einars Olgeirssonar alþingismanns og formanns Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins, en Einar varð gagnfræðingur frá skólanum 1917 og kenndi við skólann árin 1927 til 1929 ensku, þýsku, dönsku og fornaldarfræði.

  • Elsta ljósmynd af Gamla skóla er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013.  Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.