Fara í efni
Fréttir

Líðan unga fólksins í brennidepli

Frá árlegum fundi ungmennaráðs með bæjarstjórn Akureyrar. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson - Akureyri.is.

Árlegur fundur ungmennaráðs með bæjarstjórn Akureyrar var haldinn síðastliðinn þriðjudag í Ráðhúsinu. Fundurinn er oft nefndur bæjarstjórnarfundur ungafólksins. Málefnin sem þar var fjallað um voru unnin úr helstu niðurstöðum frá Stórþingi ungmenna sem haldið var í Hofi fyrr á árinu.

Margt bar á góma á fundinum. Geðheilbirgði ungmenna var mörgum ofarlega í huga, félagsstarf, aðgengi að upplýsingum, fræðsla um innflytjendur, stætókerfið, lýsingar á göngustígum og fleira.

Hér að neðan má sjá nöfn þeirra ungmenna sem tóku þátt í þessum bæjarstjórnarfundi unga fólksins og punkta um það helsta sem var rætt. Ítarlegri upplýsingar má finna í fundargerð ráðsins: Ungmennaráð - 39. fundur - 09.05.2023 | Akureyrarbær (akureyri.is)

  • Anton Bjarni Bjarkason fundarstjóri
    • Óskað eftir bættri lýsingu á göngustígum, að kveikt sé lengur og passað upp á viðhald. Börn og ungmenni lendi oft í að ganga heim á kvöldin í takmarkaðri birtu eða myrkri.
  • Erika Arna N. Sigurðardóttir
    • Umræða um upplýsingar og geðheilbrigði. Ungmenni kalla eftir betri og aðgengilegri upplýsingum um þjónustu tengda geðheilbrigði.
  • Felix Hrafn Stefánsson
    • Umræða um betra aðgengi ungmenna að þjónustu varðandi líðan, erfiðleika, áskoranir og fleira. Kallað er eftir öðrum fagstéttum en einungis námsráðgjafa, svo sem sálfræðingum og félagsráðgjöfum inn á gólfið í skólunum til að mæta þessum þörfum nemenda.
  • Freyja Dögg Ágústudóttir
    • Upplýsingar um félagsstarf. Óskað er einfaldara aðgengis að upplýsingum um það félagsstarf sem er í boði í sveitarfélaginu, betri aðstöðu til félagsstarfs og lengri opnunartíma.
  • Haukur Arnar Ottesen Pétursson
    • Frístundastyrkurinn, óskað er betri kynningu á styrknum, um hvað hann snýst, handa hverjum, hvenær og hver upphæðin sé. Spurt var hvort til greina kæmi að tekjutengja styrkinn.
    • Kallað er eftir breytingum á strætókerfinu. Leiðakerfið þykir flókið, ferðir of fáar, sér í lagi hjá vögnum 5 og 6. Mikilvægt að bæta við ferðum eftir því sem hverfin stækka.
  • Lilja Dögun Lúðvíksdóttir
    • Aukin fræðsla um uppruna og aðstæður flóttafólks/innflytjenda og hvernig það er fyrir börn sem koma til Íslands og tala ekki íslensku, sérstaklega í ljósi þess að börnum af erlendum uppruna fer fjölgandi á Akureyri og í ljósi samnings um samræmda móttöku flóttafólks, sem Akureyrarbær hefur skrifað undir.
  • Telma Ósk Þórhallsdóttir
    • Fjallaði um álag í framhaldsskólum og nemendur sem glíma við kvíða, tímaskort og uppgjöf á þeim árum sem eiga að vera þeirra skemmtilegustu. Lagðar fram fjórar tillögur til að draga úr kvíða og gefa nemendum aukin tækifæri til að vera meira við stjórnvölinn í sínum eigin málum. 

Upptöku frá fundinum má finna á YouTube-rás Akureyrarbæjar.