Fara í efni
Fréttir

Lengsta skíðastökk sögunnar af sjónarhóli COWI á Íslandi

Japansi stökkvarinn, starfsmaður COWI á Íslandi og hluti af félagsmönnum Skíðafélags Akureyrar sem aðstoðuðu við mælingu á stökkinu sjálfu. Frá vinstri: Steinar Hugi Sigurðsson, Fannar Gíslason, Steinþór Traustason COWI, Ryoyu Kobayashi, Bernhard Rupitsch, Árni Óðinsson, Sigurður G. Guðmundsson, Haraldur Ö. Hansen, Tómas Leifsson.

Afrek japanska „skíðaflugmannsins“ Ryoyu Kobayashi í Hlíðarfjalli í síðasta mánuði hefur vakið gríðarlega athygli eins og vænta mátti og Akureyri.net greindi frá í morgun. 

Skemmtileg grein um undirbúning skíðastökksins var birt í gær á vef alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins COWI og Akureyri.net fékk góðfúslegt leyfi til að birta greinina í heild í íslenskri þýðingu. Verkfræði- og ráðgjafastorfan COWI á Íslandi (áður Mannvit) er orðin hluti hins alþjóðlega fyrirtækis.

Mynd: Red Bull

Talað er um heimsmet í greininni en rétt að fram að stökkið er ekki viðurkennt sem heimsmet af alþjóða skíðasambandinu þar sem ekki var um að ræða hefðbundna keppni heldur sérstakan viðburð fyrir einn stökkvara á vegum fyrirtækis. Það var í raun vitað áður en ævintýrið hófst en breytir engu um að þetta var lengsta skíðastökk mannkynssögunnar.

Greinin er svohljóðandi í heild:

Eftir náið samstarf við Red Bull var heimsmet í skíðastökki sett þann 24. apríl síðast liðinn í Hlíðarfjalli á Akureyri. Steinþór Traustason, sérfræðingur í landmælingum, hjá COWI á Íslandi, vann ötullega að undirbúningi stökksins síðasta árið í samstarfi við Red Bull. Úr varð einstakur skíðastökkpallur og metið slegið þegar japanski skíðastökkvarinn Ryoyu Kobayashi stökk 291 metra í fjallinu. Í heild sinni gekk ferlið vel þótt að íslensk veðrátta hafi spilað inn í á köflum. Einnig var haft veður af því að álfar hafi komið við sögu. Hver veit? Við ætlum þó ekki að kafa dýpra í það hér. Við fengum Steinþór til þess að segja okkur nánar frá þessu merka afreki.

Steinþór Traustason, sérfræðingur í landmælingum hjá COWI á Íslandi, að störfum í Hlíðarfjalli. Mynd: Red Bull

Eftir umtalsverða leit að hentugu svæði fyrir skíðastökk af þessari lengdargráðu lýsti starfsfólk Red Bull yfir endanlegri staðarákvörðun. Ísland varð fyrir valinu – nánar tiltekið Akureyri, rétt norðan skíðasvæðið í Hlíðarfjalli. Þá má segja að ævintýrið hafi formlega hafist en það var í apríl 2023 sem Red Bull óskaði eftir aðstoð frá COWI á Akureyri við gerð á umræddum skíðastökkpalli. Markmiðið var að reyna að slá fyrra heimsmet sem þá stóð í 253,5 metrum og var fyrsta skrefið að útvega hæðargögn af fyrirhugaðri staðsetningu.

Bærinn nýtur góðs af

Við tók gríðarleg undirbúningsvinna sem stóð yfir í heilt ár. COWI á Íslandi kom að greiningum á brekkunni sjálfri og bar hana saman við nokkra af stærstu skíðastökkpöllum heims. Greiningarvinnan var mjög ítarleg og hávísindaleg og kom reynsla okkar fólks og tengsl þá sannarlega að góðum notum. COWI kom jafnframt að hönnun pallsins með tékkmælingu á mannvirkinu sem og magntöku og lengdarmælingu á stökkinu sjálfu. Samskipti við heimafólk og tenging Red Bull-teymisins við aðila hér á landi var einnig í höndum Steinþórs.

Mynd: Red Bull

Það var lagt upp með það frá byrjun að skilja eftir sig sem minnst umhverfisspor við framkvæmdina. Engu landi var raskað og aðeins var notast við náttúrulegan snjó við gerð pallsins. Allur efniviður nýtist áfram sem skíðafélagið í bænum fær að njóta góðs af.

„Starfsmaður á þeirra vegum kom norður og eftir að hafa tekið þyrluflug yfir norðanverðan Tröllaskagann leit hann við á skrifstofunni og óskaði eftir því að fá að sjá kort og þrívídd af svæðinu við Hlíðarfjall,“ útskýrir Steinþór. „Nokkrum mánuðum síðar höfðu þau samband við okkur og vildu fá send nokkur langsnið af brekkunni í Hlíðarfjalli. Í kjölfarið kom teymi frá Red Bull hingað til lands ásamt Ryoyu Kobayashi til þess að skoða aðstæður á Akureyri. Þeim leist mjög vel á svæðið og voru einnig mjög hrifin af því hversu stuttar boðleiðirnar voru á milli fólks,“ bætir hann við.

Verkefnið hafði yfir sér mjög heimilislegan blæ frá upphafi til enda og var fólk í nærsamfélaginu strax boðið og búið til þess að aðstoða við þetta verðuga verkefni með einum eða öðrum hætti. Jafnframt er verkefnið gríðarlega góð kynning fyrir Akureyri en fréttir og áhorf á myndbandið af stökkinu hefur nú náð yfir 1 milljarð á örskömmum tíma.

Mynd: Red Bull

Snjómagn á við 48 keppnislaugar

Reiknaður var út flugferill Kobayashi miðað við aðstæður í Hlíðarfjalli í samstarfi við háskóla í Japan og gáfu mælingar það til kynna að hann þyrfti að ná a.m.k. hraðanum 105 km/klst til að ná allt að 300 metra stökki. Allan tímann var ljóst að ekki yrði hannað mannvirki sem myndu uppfylla alla þá staðla og skilyrði sem alþjóðlega skíðasambandið (FIS) setur. Til þess þyrfti töluvert meira snjómagn svo hægt væri að aðlaga slíkan pall að Hlíðarfjalli. Landslagið í fjallinu þótti þó einstakt og stökkpallurinn því aðlagaður að því.

Pallurinn var í fyrstu grófhannaður svo hægt væri að átta sig á því hversu mikið magn af snjó þyrfti í þessa framkvæmd, sem endaði í 120 þúsund rúmmetrum í heildina. Til viðmiðunar þá er stöðluð stærð sundlauga sem notaðar eru á Ólympíuleikunum 2.500 m3, sem gerir um 48 keppnislaugar.

Samstarfsmenn skíðastökkvarans Ryoyu Kobayashi tollera Japanann eftir hið frábæra afrek hans í Hlíðarfjalli. Mynd: Red Bull

Mikið þrekvirki unnið
Í lok febrúar á þessu ári komu loks tveir troðarar á vegum Red Bull til landsins ásamt tveimur starfsmönnum frá Shneestern, þýsku fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á skíða- og brettapöllum. Þá hófst vinna við að ýta snjó af brún Hlíðarfjalls niður í skálina. Unnið var allan sólarhringinn flesta daga í mars og um mánaðarmótin var farið í að móta pallinn og koma honum í rétt form. Stefnt var á að stökkva í vikunni eftir páska og var hátt í 50 manna teymi Íslendinga og erlendra aðila á vegum Red Bull komið til Akureyrar. En íslenska veðráttan setti strik í reikninginn og eftir þriggja daga stórhríð og óstöðugt veður dagana á eftir var ákveðið að bíða yrði betra færis. „Viku síðar fór fólkið svo að streyma aftur í bæinn og mánudaginn 22. apríl fór undirbúningsvinnan aftur á fullt í fjallinu. Dagarnir voru langir en að lokum tókst þetta með tilætluðum árangri," segir Steinþór að lokum.

Hér var unnið mikið þrekvirki en viðburður af þessu tagi hefði aldrei getað orðið að veruleika án þeirrar gríðarlegu vinnu sem innt var af hendi okkar fólks í góðri samvinnu við Red Bull. Það er ljóst að þetta er lengsta skíðastökk sem hefur verið framkvæmt, hér voru aðstæður með besta móti og stökkið sjálft mikið afrek.