Fara í efni
Fréttir

Leikskóli fyrir 160 börn í Hagahverfi

Samningurinn undirritaður. Ólafur Ragnarsson forstjóri Húsheildar ehf. og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. Mynd: Hulda Sif Hermannsdóttir.

Akureyrarbær hefur samið við Húsheild ehf. um hönnun og byggingu leikskóla við Naustagötu í Hagahverfi ásamt frágangi á leiksvæði, leiktækjum, bílastæði og öðru á lóð. Samningur þar um var undirritaður í dag.

Lóð leikskólans er um 9.328 m² að stærð og gert er ráð fyrir 40-50 bílastæðum á lóðinni. Byggja skal einnar hæðar byggingu sem verður um 1.665 m².

„Markmiðið er að bæta úr þörf fyrir 8 deilda leikskóla við Naustagötu 9 í Hagahverfi á Akureyri og að öll aðstaða fyrir börn og starfsfólk verði til fyrirmyndar,“ segir á vef Akureyrarbæjar. „Leikskóli í Hagahverfi verður við Naustagötu þar sem bærinn Naust 2 stóð áður. Á lóðinni er nokkur trjágróður sem lögð er sérstök áhersla á að nýta sem best fyrir leikskólalóðina. Lóðin er einnig í góðum tengslum við fallega náttúru og útivistarsvæði með trjárækt.“

Leikskólinn er fyrir um 156 börn á 8 deildum, leikrými fyrir hvert barn verði að lágmarki 3,5 fermetrar og börnin eru á aldrinum eins árs til sex ára. „Gert er ráð fyrir allt að 47 stöðugildum i leikskólanum en mestur getur fjöldinn orðið 55 samtímis, vegna afleysinga og sérstuðnings. Markmið Akureyrarbæjar með byggingu leikskólans eru að bæta úr þörf fyrir 5 deildir 2026 og fullbúinn leikskóla með 8 deildum árið 2028,“ segir á vef bæjarins.

Við hönnun leikskólans er hugað sérstaklega að skjólmyndun á leikskólalóð, segir á vef Akureyrarbæjar, þannig að börn njóti útiverunnar sem mest. „Hönnun og efnisval tekur mið af því að allt viðhald verði sem hagkvæmast til lengri tíma litið. Leikskólinn verður byggður í “L” og að mestu meðfram norðurhlið lóðar og að hluta með austurhlið að trjáreit sem á að varðveita. Lögð er áhersla á að húsið veiti skjól fyrir norðan- og norðaustanátt og þarf verktaki að láta gera vindgreiningu vegna norðanáttar og bregðast við því sem upp á vantar til að skýla fyrir norðanátt.“

Verkinu er skipt í tvo áfanga. Fyrri áfanga skal ljúka í ágúst 2026 en hann felur í sér fullnaðarfrágang á 4-5 deildum og hluta lóðar ásamt bílastæðum. Síðari áfanginn er fullnaðarfrágangur á leikskólanum sem skal lokið í júní 2028.

Nánar hér á vef Akureyrarbæjar