Fara í efni
Fréttir

Leikmenn nærast á orku stuðningsmanna

Daníel Andri veit hvað hann vill og horfir einbeittur á markmið liðsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Uppfært kl. 16:00 - staðfestur leiktími er 19:30 í kvöld.

Uppfært: Nýjustu fregnir herma að seinkun verði á leiknum, en ekki vitað nákvæmlega hve mikil. Bæði lið eru á Akureyri, en þar sem ekki var flogið í morgun eru dómarar á norðurleið akandi og miðað við aðstæður, viðvaranir og lokanir er ekki gott að segja til um tímasetningu. Á meðan er auðvitað hægt að stytta sér stundir og lesa viðtalið við Daníel þjálfara eða annað efni á akureyri.net.

---

Lífið er ekki alltaf dans á rósum og ekkert íþróttalið vinnur alla leiki. Með hverjum sigurleiknum styttist í næsta tapleik og á endanum kemur hann. Eftir langa sigurgöngu sem vakið hefur verðskuldaða athygli, tíu sigra í Bónusdeildinni og tvo í VÍS-bikarnum, fullkominn árangur á heimavelli á leiktíðinni, kom að tapleik hjá kvennaliði Þórs í körfubolta. Fyrsta tap á heimavelli í vetur og í kjölfarið fylgdu tvö töp á erfiðum útivelli fyrir sama liðinu.

Í dag fá Þórsarar lið Vals í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri og hefst leikurinn kl. 17. Valsliðið skaust upp í A-hlutann á endaspretti deildarinnar og hefur verið á uppleið að undanförnu eftir brösótta byrjun á keppnistímabilinu.


Mikilvægi öflugs stuðnings úr stúkunni verður seint ofmetið, sérstaklega í spennandi og mikilvægum leikjum. Það hefur oft sýnt sig í heimaleikjum og sýndi sig í bikarævintýrinu í fyrra. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Fram undan eru mikilvægar vikur í lífi Daníels Andra Halldórssonar, þjálfara liðsins, og liðinu öllu. Lokaspretturinn í Bónusdeildinni, A-hlutanum þar sem Þórsliðið spilar, er hafinn og eftir rétt rúman mánuð er komið að fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Í millitíðinni er á dagskrá að eiga eitt lítið bikarævintýri um miðjan mars.

Akureyri.net heyrði hljóðið í Daníel Andra fyrir leikinn í kvöld til að spyrja út í árangur liðsins, mikilvægi stuðningsmanna, bikardráttinn á morgun og framhaldið hjá liðinu.

Nærast á orku stuðningsmanna

Svo óheppilega vill til að fjöldi stuðningsmanna, ungra sem eldri, verður fjarverandi á körfuboltamóti fyrir sunnan þegar Þór tekur á móti Val síðdegis, sem minnir á hve miklu máli það getur skipt fyrir leikmenn að finna stoðning og orku úr stúkunni. Daníel hvetur því stuðningsmenn sem eru heimavið til að hlaupa í skarðið, mæta á leikinn og næra leikmenn á orkunni.

„Síðustu ár hefur alltaf verið gríðarlega vel mætt á leiki hjá okkur, mikil læti og stemning fyrir okkar leikmenn til að nærast svolítið á! En það vill svo til að nærri helmingur af iðkendum yngri flokka, auk foreldra og systkina, verða í Reykjanesbæ á Nettómóti um helgina sem er ekki ákjósanlegt fyrir svona leik. Stefnan er auðvitað alltaf að fylla Höllina þó það takist ekki alltaf en við viljum samt sem áður sjá eins marga í stúkunni og mögulegt er til að styðja við liðið í hörkuleik í okkar húsi!“ segir Daníel Andri.

Næsti leikur alltaf mikilvægastur

Leikurinn í dag snýst meðal annars um að ná einu af markmiðum liðsins því sigur er mikilvægur upp á staðsetningu liðsins fyrir úrslitakeppnina.

„Næsti leikur er auðvitað alltaf sá mikilvægasti, “segir Daníel Andri, „en hins vegar hefur þessi leikur aðeins meira vægi en venjulegur heimaleikur. Við tryggjum heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar með sigri á Valskonum núna á sunnudaginn og getum þar með strikað yfir eitt af markmiðum liðsins sem við settum okkur á undirbúningstímabili.“

Veit hvað þessi hópur getur

„Hópurinn hefur verið lengi af stað eftir landsleikjafríið,“ segir Daníel Andri. „Við misstígum okkur á heimavelli á móti vængbrotnu Stjörnuliði og förum svo tvisvar í röð til Njarðvíkur á erfiðan útivöll. Auðvitað getur þetta verið fúlt eftir að hafa ekki tapað leik í tæpa rjá mánuði, en ég hef samt engar áhyggjur ennþá. Ég er fullmeðvitaður um hvað hópurinn er fær um og það má ekki gleyma því að fyrir þessa þrjá tapleiki unnum við 12 leiki í röð í deild og bikar. Það þýðir ekkert að efast um sjálfa sig núna - við spilum heilt tímabil bara til þess að komast á þann stað sem við erum núna með úrslitakeppni og bikarkeppni fyrir framan okkur.“

Getu liðsins er varla hægt að draga í efa þrátt fyrir að inn á milli komi tapleikir, jafnvel tveir eða þrír í röð. Þórsliðið hóf tímabilið með því að skila bikar í hús eftir glæstan sigur á fjórföldum meisturum Keflavíkur og einum reyndasta körfuboltaþjálfara landsins í meistarakeppni KKÍ. Það verður ekki af þeim tekið.


Daníel Andri fer yfir málin með Maddie Sutton í úrslitaleik VÍS-bikarsins í fyrra. Heiða Hlín Björnsdóttir er klár í að láta til sín taka, en nú er hún í hlutverki aðstoðarþjálfara þótt stöku sinnum hafi hún verið klár í keppnisbúningnum og komið inn á í leikjum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Krefjandi verkefni fram undan

Fyrir utan leikinn gegn Val á sunnudaginn er nóg af spennandi verkefnum fram undan hjá Daníel Andra og liðinu, og auðvitað verkefni fyrir stuðningsliðið einnig. Þórsliðið er sem kunnugt er á leið í undanúrslit VÍS-bikarsins annað árið í röð eftir frækinn sigur á Haukum, efsta liði Bónusdeildarinnar. Dregið verður um það í hádeginu á morgun, mánudaginn 3. mars, hvaða lið mætast í undanúrslitum. Í potti kvennaliðanna verða Þór, Grindavík, Hamar/Þór og Njarðvík. 


Daníel Andri hefur vakið athygli fyrir yfirvegun í stjórn liðsins og viðtölum. Klæðaburðurinn var líka í samræmi við það í úrslitaleiknum í fyrra. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Víst er að Daníel Andri og leikmennirnir fara ekki fram úr sér og einbeita sér núna að næsta leik eins og alltaf, þó akureyri.net, stjórnin og stuðningsfólk sé farið að huga að suðurferð um miðjan marsmánuð. Fram undan er smá bikarævintýri, bara spurning hvort það verður einn eða tveir leikir, spurning hvort það endar með heimferð í miðri viku án verðlauna eða þá silfri eða gulli. 

„Það verður dregið í bikarnum í hádeginu á mánudag og auðvitað mikill spenningur fyrir ferð í undanúrslit annað árið í röð. Við erum bara að hugsa um næsta leik en auðvitað setjum við stefnuna á aðra ferð í úrslitaleikinn og gerum vonandi betur þar heldur en í síðasta úrslitaleik,“ segir Daníel Andri spurður um framhaldið hjá liðinu.


Fátt jafnast á við það að fagna góðum sigri með sínu fólki. Hér gleðjast Þórsarar yfir sæti í úrslitaleik VÍS-bikarsins eftir sigur á Grindavík í undanúrslitum. 

Það tekur auðvitað aðeins á taugarnar að tapa mikilvægum leikjum, en það er þá verkefni en ekki vandamál.

„Smá andleg lægð núna en það er bara ekkert annað sem kemur til greina en að rífa sig upp úr þessu og hvergi betra að gera það en í mikilvægum leik á okkar heimavelli fyrir framan okkar fólk! Þetta er ennþá sami leikstíll, sami hópur og þjálfari sem unnu tólf leiki í röð. Það þarf bara að rifja upp trúna, sjálfstraustið og ákefðina á ný og vera sama stórhættulega liðið og við höfum verið megnið af tímabilinu,“ segir Daníel Andri Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Þórs í körfubolta, bjartsýnn, vongóður og spenntur fyrir framhaldinu.