Leiðinlegt foreldri eða ábyrgðarfullt?
„Ég legg það til að hér eftir ávörpum við foreldra sem að sýna ábyrgð með því að gæta að velferð barna sinna sem frábæra en ekki leiðinlega. Það leiðinlega er að við höfum skilgreint foreldrið sem engin mörk setur og leyfir allt sem vinsæla foreldrið.“
Þetta segir Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd, í grein sem Akureyri.net birti í gær.
Síðastliðna tvo mánuði hefur Skúli Bragi ferðast um landið og haldið rúmlega 100 fræðsluerindi um netöryggi, persónuvernd og miðlalæsi fyrir börn, ungmenni, foreldra og kennara. „Á öllum þeim foreldrafundum sem ég hef sótt hafa verið samankomnir ábyrgðarfullir og samviskusamir foreldrar sem að kynna sig gjarnan sem leiðinlega foreldrið,“ skrifar hann.
„Hæ ég heiti Skúli og ég er svona leiðinlegt foreldri sem að setur reglur og ramma um notkun barnsins míns á tækjum og aðgangi að aldursmerktu efni.“
Skúli Bragi spyr:
- Er foreldri sem leiðir barn yfir götu eða á bílastæði leiðinlegt fyrir að vilja passa sérstaklega upp á börn sem ekki hafa lært umferðarreglurnar?
- Er foreldri sem spennir bílbeltið hjá barni sínu og setur hjálm á höfuð þess áður en það fer að hjóla leiðinlegt fyrir að vilja gæta að öryggi þess í umferðinni?
- Erum við leiðinleg sem samfélag að skikka alla í ökuskólann og æfingarakstur áður en við veitum þeim ökuskírteini til þess að vera frjáls ferða sinna í umferðinni?
Smellið hér til að lesa grein Skúla Braga