Leiðandi í orkuskiptum í Europcar-löndum
Höldur- Bílaleiga Akureyrar er umboðsaðili fyrir Europcar á Íslandi og hlaut í byrjun mánaðarins verðlaun fyrir góðan árangur í sjálfbærri þróun á heimsráðstefnu Europcar Mobility Group sem haldin var í Berlín.
„Fyrirtækið var þar verðlaunað fyrir framúrskarandi vinnu við uppbyggingu innviða er snúa að orkuskiptum sem og fjölda rafbíla í flotanum en Europcar á Íslandi er í dag með flesta rafbíla af öllum aðildarlöndum Europcar,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar.
„Gríðarleg viðurkenning“
Steingrímur segir fyrirtækið hafa verið leiðandi í orkuskiptum bílaflotans hér á landi og sé með stærsta hlutfall rafbíla til leigu á Íslandi í dag. Fram kom á Akureyri.net í morgun að nýlega bættist 500. rafbíllinn í flota fyrirtækisins. „Þau verðlaun sem við hlutum nú frá Europcar sanna að við erum ekki aðeins leiðandi í orkuskiptum á Íslandi heldur einnig í öllum þeim löndum sem Europcar starfar í á heimsvísu. Verðlaunin eru gríðarleg viðurkenning á okkar starfi,“ segir Steingrímur.
Í tilkynningunni segir að fyrirtækið leggi ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð „og að starfa í sátt við umhverfið og er fyrsta og eina bílaleigan til þess að hljóta vottun samkvæmt ISO-14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum.“
Frétt Akureyri.net í morgun: 500. rafbíllinn í flota Bílaleigu Akureyrar