Fara í efni
Fréttir

Legudeildarbygging SAk innan fimm ára?

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: sak.is

Fjármálaráðherra hefur gert breytingar á skipulagi framkvæmda varðandi sérhæfða sjúkrahúsþjónustu og er NLSH ohf. falið að fara með verklegar framkvæmdir við uppbyggingu á innviðum hennar. Þetta kemur fram í frétt Sjúkrahússins á Akureyri.

Nýr Landspítali Háskólasjúkrahús - NLSH ofh. - mun vinna að nýrri legudeildarbyggingu fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri í samstarfi við sjúkrahúsið. Í því felst endurskoðun á frumathugun á byggingu legudeilda sem gert er ráð fyrir að ljúki á næstu mánuðum. Í framhaldi af því verður farið í útboð á fullnaðarhönnun nýju byggingarinnar og mun sú vinna fara fram síðar á árinu. Þá mun NLSH ofh. einnig tryggja að fram fari ástands-, eiginleika- og hentugleikaskoðun á eldri byggingum sjúkrahússins, að því er fram kemur í fréttinni. 

Nýlega var skrifað undir ráðgjafarsamning milli SAk og NLSH ohf. og hefur Sak hafið undirbúning sín megin með tilliti til notendahópa, verkefnastjóra og annarra sem að verkefninu koma. Búist er við að verkefnið gangi vel og áformað að innan fimm ára verði ný legudeildarbygging risin, ásamt því að breytingar verði gerðar á legudeildastarfsemi í eldri byggingum spítalans.