Fara í efni
Fréttir

Laxablóð auðlind sem má nýta í ýmsar afurðir

Nemendur HA þau Friðbjörg María og Kasper Jan við innsöfnun blóðs sl. sumar hjá Samherja fiskeldi í Silfurstjörnunni í Öxarfirði. Á myndinni eru líka tveir starfsmenn Silfurstjörnunnar sem aðstoðuðu við verkið.

Laxablóð er auðlind sem má nýta í ýmsar afurðir að sögn Rannveigar Björnsdóttur dósents við auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Nýlega kom út lokaskýrsla vegna rannsóknarverkefnis er snýr að söfnun og nýtingu á blóði úr eldislaxi og lofa niðurstöðurnar góðu.

„Ég er bara mjög bjartsýn á það að innan fárra ára verði hér á landi komin í gang vinnsla þar sem laxablóð er nýtt í einhverjar spennandi vörur. Laxeldi er stækkandi atvinnugrein hér á landi og það fellur til mikið blóð sem nýta mætti í ýmsar hliðarafurðir,“ segir Rannveig sem stýrði rannsóknarverkefninu, en tveir nemendur við Háskólann á Akureyri, þau Friðbjörg María Björnsdóttir og Kasper Jan S. Róbertsson unnu tvö verkefni er tengdust rannsókninni, en þriðji hluti verkefnisins var unninn af Helenu Þórdísi Svavarsdóttur sem útskrifaðist nýlega úr líftækni við HA og stundar nú meistaranám við Háskóla Íslands.

Margt hægt að vinna úr blóðinu

Aðspurð í hvað laxablóð geti nákvæmlega nýst segir Rannveig möguleikana vera marga. Blóðið sé bæði járn- og próteinríkt og gæti því hentað vel í fæðubótarefni fyrir fólk. Þá getur það nýst til litunar á pylsum, í gæludýrafóður og í fiskisósur. Eins gætu frostvarnarprótín sem eru í blóðinu nýst við t.d varðveislu matvæla og einnig lífæra. Rannveig bendir á að fyrirtækið Nofima og fleiri fyrirtæki í Noregi séu nú þegar að skoða nýtingu laxablóðs í fæðurbótaefni og Skotar hafi áður skoðað nýtingu þess í bíódísel.

Laxeldi er stækkandi atvinnugrein hér á landi og það fellur til mikið blóð við slátrun laxanna sem nýta mætti í ýmsar hliðarafurðir að sögn Rannveigar Björnsdóttur dósents við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Mynd: Unsplash/Abstral Official

„Við Íslendingar höfum verið framarlega hvað hliðarafurðir úr hvítfiski varðar. Ég sé fyrir mér að við getum yfirfært þekkingu okkar á því sviði yfir á laxeldið, en blóð eldisfiska er algjörlega ónýttur möguleiki,“ segir Rannveig. Allt sé þetta þó spurning um arðsemi og fyrsta skrefið sé að gera vinnsluna þannig að auðvelt sé að safna blóðinu saman við slátrun. „Annars er ekki hægt að tala um neinn iðnað eða framleiðslu ef ekki er hægt að gera þetta á auðveldan hátt án þess að það trufli vinnsluna. Þegar það er komið er ég viss um að einhver spennandi vöruþróun líti dagsins ljós,“ segir Rannveig og bætir við að óskastaðan sé auðvitað sú að hægt verði að fullvinna vöru hér á landi úr blóðinu.

Sérhannaður búnaður til blóðsöfnunar

Rannsóknin var unnin í samvinnu við Slippinn-DNG, Samherja fiskeldi í Öxarfirði, Matís og Eim og segir Rannveig að öll þessi fyrirtæki séu spennt fyrir að skoða áframhaldandi möguleika. Í nýafstöðnu sumarverkefni nemanna voru framkvæmdar tilraunir með þurr blæðingu laxa og söfnum á blóði eldislaxa við slátrun, með búnaði sem var sérstaklega hannaður og smíðaður fyrir verkefnið. Næringargildi blóðsins voru rannsökuð ásamt því að gæði og geymsluþol flaka var metið með mismunandi aðferðum, því mikilvægt er að gæði fisksins rýrni ekki í ferlinu. Rannsóknarskýrslunni hefur nú verið skilað inn til Nýsköpunarsjóðs námsmanna sem studdi verkefnið. Segist Rannveig binda vonir við að skýrslan verði tilnefnd til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands enda um mjög spennandi nýsköpunarverkefni að ræða.

Lesa má nánar um verkefnið inn á heimasíðu Háskólans á Akureyri. Smellið hér til að lesa.