Lautin er mikilvæg fyrir stóran hóp fólks
Í gær var haldið upp á 20 ára afmæli Lautarinnar, athvarfs á Akureyri fyrir fólk með geðraskanir. Þá voru nákvæmlega 22 liðin síðan Lautin hóf starfsemi en afmælishaldið tafðist vegna Covid.
Ólafur Torfason, forstöðumaður Lautarinnar, segir að staðurinn hafi frá upphafi verið vel sóttur og gegnt mikilvægu hlutverki hjá stórum hópi einstaklinga sem glíma við geðraskanir. Boðið er upp á heitan mat í hádeginu, kaffi og margvíslegt félagsstarf.
„Við, sem komum að rekstri Lautarinnar, erum stolt af okkar starfi og vitum hve miklivæg hún er í daglegu lífi fjölmargra bæjarbúa,“ segir Ólafur Torfason í grein sem birtist á Akureyri.net í dag. Hann segir leitt að Reykjavíkurborg skuli hafa lokað Vin athvarfi, sem sé sambærilegt Lautinni. Þar sé ráðist á hóp sem geti illa varið sig og lokunin verði til þess að þeir sem sótt hafi Vin muni einangrast og það auki á vanlíðan þeirra og ýti undir frekari veikindi.
„Akureyrarbær getur verið stoltur af því að standa vörð um rekstur Lautarinnar og tryggja þannig velferð þeirra sem þurfa slíkt úrræði eins og Lautin býður upp á,“ segir Ólafur.
Smellið hér til að lesa grein Ólafs Torfasonar.